Skip to main content

Fréttir

Samtalsorðabók – ný orðabók sem varpar ljósi á íslenskt talmál

Út er komin veforðabókin Samtalsorðabók sem er tilraunaverkefni á orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Tilgangur verkefnisins er að setja munnleg samskipti í öndvegi og sýna talmáli þá athygli sem það á skilið. Orðabókin lýsir raunverulegri notkun í nútímaíslensku og því er ekki gert upp á milli gamalgróinna og viðurkenndra orða og nýjunga sem einkum koma fyrir í mjög óformlegu máli ungs fólks. 

Í Samtalsorðabók má fletta upp orðum, hljóðum og orðasamböndum sem gegna mikilvægu hlutverki í samtölum. Sem dæmi má nefna kveðjur, ávörp, blótsyrði, kurteisisorð og ýmiss konar orðasambönd, hljóð og smáorð sem við notum til að taka á móti upplýsingum, láta í ljós viðhorf okkar til þess sem kemur fram í samtalinu eða liðka fyrir samskiptum. Undir hverri flettu eru nokkur brot úr hljóðrituðum samtölum þar sem skoða má notkun flettunnar í samhengi og hlusta. Dæmin eru sótt í útvarpsþætti, hlaðvörp og hversdagsleg samtöl venjulegra Íslendinga. 

Í fyrstu útgáfu orðabókarinnar eru 167 uppflettiorð og 403 notkunardæmi en ætlunin er að halda áfram þróun hennar með því að bæta við fleiri uppflettiorðum, betrumbæta orðabókarskýringar og fjölga dæmum. Markhópurinn er einkum nemar í íslensku sem öðru máli en einnig nýtist orðabókin þýðendum og öllum þeim sem áhuga hafa á íslenskri tungu. 

Grunnurinn að Samtalsorðabók var lagður með styrk úr Nýsköpunarsjóði Rannís. Starfsmenn verkefnisins voru Ása Bergný Tómasdóttir og Kristín Björg Björnsdóttir en ritstjóri er Helga Hilmisdóttir. 

Vefslóð Samtalsorðabókar er samtalsordabok.arnastofnun.is.