Vorið 2024 hlaut Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum styrk úr Barnamenningarsjóði fyrir fræðslu- og listsköpunarverkefnið Hvað er með ásum? Verkefnið er unnið í samvinnu við skóla um allt land: Grunnskóla Drangsness, Grunnskóla Hólmavíkur, Grunnskóla Snæfellsbæjar, Nesskóla á Neskaupstað, Vesturbæjarskóla, Hraunvallaskóla og Myndlistaskólann í Reykjavík.
Í lok febrúar hófst ferðalag Mörtu Guðrúnar Jóhannesdóttur safnkennara Árnastofnunar um landið en heimsóknir í samstarfsskólana á landsbyggðinni þar sem nemendur fengu færi á að stíga inn í heim handritanna voru hluti verkefnisins Hvað er með ásum?
Grunnskólar Drangsness og Hólmavíkur
Fyrsti viðkomustaður safnkennara var í Grunnskóla Drangsness í Kaldrananeshreppi á Ströndum þar sem nemendur í yngri deild skólans og Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi voru heimsóttir. Nemendur voru mjög áhugasamir og spurðu safnkennara spjörunum úr ásamt því að aðstoða hann við að taka upp úr töskunum. Í farangri safnkennara kenndi ýmissa grasa en með í för var ýmislegt sem tengist handritagerð miðalda; fjaðurstafir, bókfell og blek ásamt fleiru sem varpar ljósi á hvernig elstu varðveittu handritin okkar voru búin til. Ásta Þórisdóttir, skólastjóri Grunnskóla Drangsness, sem einnig sér um list- og verkgreinakennslu í grunnskólunum þremur á Ströndum mun bjóða nemendum skólanna upp á að búa til sinn eigin fjaðurstaf og sjóða jurtablek.
Næst tóku nemendur miðdeildar Grunnskóla Drangsness og Grunnskóla Hólmavíkur á móti safnkennara en yngstu nemendur Grunnskóla Hólmavíkur fengu líka að líta á gripina og aðstoða safnkennara við að raða þeim upp og þar á meðal Plateyjarbók en Plateyjarbók er nýtt nafn á eftirlíkingu Flateyjarbókar. Þessi eftirlíking hefur ferðast víða rétt eins og frumhandritið en hún fylgdi m.a. Svanhildi Maríu, sem áður starfaði sem safnkennari á Árnastofnun, á ferðum hennar um landið á árunum 2014−2016. Börnin í miðdeildinni tóku þátt í myndagetraun þar sem þau fengu færi á að sýna þekkingu sína á norrænni goðafræði enda myndirnar í getrauninni fengnar úr myndskreyttum Eddum sem verið hafa til sýnis á sýningunni Heimur í orðum. Nemendur skólanna á Ströndum hafa verið að vinna með goðafræðina á ýmsan hátt og frumsýna á næstu vikum frumsamið leikverk sem byggir á norrænni goðafræði. Sumir nemendur endurnýjuðu kynni sín við Plateyjarbók sem hafði ratað norður á Strandir árið 2021 þegar þess var minnst að 50 ár voru þá liðin síðan fyrstu handritin komu heim.
Nesskóli á Neskaupstað og Grunnskóli Snæfellsbæjar
Hrafna Hanna E. Herbertsdóttir, list- og verkgreinakennari í Nesskóla á Neskaupstað, er ein af samstarfskennurum verkefnisins en hún tók á móti safnkennara í byrjun mars þegar nemendur í 5. bekk skólans voru heimsóttir. Aðrir nemendur á miðstigi fengu að slást í hópinn og kynnast sýningunni Heimur í orðum ásamt fleiru. Nemendur 5. bekkjar fóru í hlutverk skrifara, drógu fram fjaðurstafi og bæði skrifuðu og teiknuðu á bókfell. Þau munu í framhaldinu vinna verk úr leir og kannski verða þar til leirjötnar eða aðrar persónur ættaðar úr norrænni goðafræði.
Síðasta heimsóknin var í Grunnskóla Snæfellsbæjar á Hellissandi en þar tók Ingiríður Harðardóttir, list- og verkgreinakennari, á móti safnkennara. Börnin á Hellissandi hafa unnið margs konar myndverk út frá viðfangsefni verkefnisins. Þau hafa teiknað upp Ask Yggdrasils og þær verur sem í honum búa ásamt fleiru. Eins og börnin á Neskaupstað fengu nemendur grunnskólans á Hellissandi að setja sig í spor skrifara miðalda þegar kennslustofunni þeirra var breytt í scriptorium eða ritstofu.
Í lok hverrar heimsóknar fengu gestgjafar boðsmiða á sýninguna Heimur í orðum en börnin sýndu því mikinn áhuga að heimsækja Eddu í næstu bæjarferð.
Móttökurnar í skólunum fjórum voru einstaklega góðar og gaman að sjá hvað nemendur sýna handritaarfinum mikinn áhuga.
Stefnt er að því að sýna afrakstur verkefnisins í safnkennslustofunni á 1. hæð í Eddu en fjölbreytt verk í ólíkum miðlum hafa verið unnin af börnunum sem tekið hafa þátt í verkefninu Hvað er með ásum? undir styrkri leiðsögn kennara sinna.