Skip to main content

Fréttir

Rím í íslenskum dægurlagatextum

Hannesarholt við Grundarstíg 10.

 

Annað rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða á vormisseri 2013 verður haldið miðvikudaginn 27. febrúar kl. 20 í Hannesarholti, Grundarstíg 10, 101 Reykjavík. Þar ræðir Bjarki Karlsson ræða um rím og tíðni þess í íslenskum dægurlagatextum.

Bjarki lýsir erindi sínu á þessa leið:
Ásamt ljóðstöfum og fastri hrynjandi er rím þáttur sem getur gert óbundið mál að bundu. Það er fyrirferðarmikið á öllum tímum í íslenskri bragsögu þó að yfirleitt hafi verið í notkun bragarhættir sem krefjast ekki ríms. Rím er þó ekki alltaf eins augljóst hugtak og ætla mætti. Í bragfræði er gerður greinarmunur á innrími og endarími, alrími og hálfrími, aðalhendingum og skothendingum og einnig ein-, tví- og þríliðarími. Rímið hefur verið talið nokkuð áreiðanlegt og stundum verið kallað til vitnisburðar um framburðarbreytingar eða notað við aldursgreiningu.

En rímið er ekki svo einfalt. Stundum er látið reyna á þanþol hlustandans. Áherslulausum orðum er stillt upp í áherslusæti til að þvinga fram rím, eins og þegar ágúst er látinn ríma við á þúst. Samsett orð eru látin ríma í tvennu lagi: Búðardal við brúðarval. Lengd málhljóða verður jafnvel upphafin: finnur rímar við stynur. Svo mætti lengi telja. Ofangreind dæmi eru úr dægurlagatextum en þó er óhefðbundið og sérstakt rím miklu eldra. Þetta verður borið saman og fjallað um tíðni ríms í dægurlagatextum frá 1950 til 2012. Einnig verður kynntur hugbúnaður sem er í smíðum og getur lesið í gegnum stór textasöfn og leitað uppi óvenjulegt rím.

Bjarki Karlsson er doktorsnemi í íslenskri bragfræði og málfræði við Háskóla Íslands. Doktorsrannsókn hans kallast Bundið mál á vestur-norrænu málsvæði á síðari öldum. Hún snýst m.a. um að kanna hrynjandi, ljóðstafi, rím og erindaskipan bundins máls frá 1550 til okkar daga.

Allir velkomnir!