Þegar fé var veitt úr Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands fyrir árið 2016 hlutu fjórir af fræðimönnum stofnunar Árna Magnússonar styrk til jafn margra verkefna.
Emily D. Lethbridge fékk styrk til að vinna, ásamt meistaranema, verkefnið „Insight & Imagination: Saga Pilgrimages Mapped & Measured.“ Þar beinist athyglin að sagnapílagrímaferðum á 19. öld og dagbókum ferðamanna þar sem sagnaslóðaleiðangri er lýst. Markmið verkefnisins er að nota GIS og Icelandic Saga Map kerfið til að byrja að kortleggja þessar ferðabækur (eftir t.d. William Morris og William Gershom Collingwood), og fá þannig betri innsýn í hvert menn fóru, hvenær og hvernig vinsældir ákveðinna staða þróuðust.
Haukur Þorgeirsson fékk styrk til rannsóknarinnar „The Icelandic quantity shift - compounds and vowel length.“ Í verkefninu er kveðskapur notaður til að rannsaka þróun sérhljóðalengdar og aðblásturs í samsettum orðum. Vísuorð eins og „saklaus gjörði hún drottni þakkir“ í Heilagra meyja drápu sýna að þá hefur þessum atriðum verið öðruvísi háttað en síðar varð enda rímar 'saklaus' ómögulega við 'þakkir' í nútímamáli. Hegðun samsettra orða verður athuguð skipulega í dróttkvæðum og hrynhendum kveðskap fyrir og eftir siðaskipti.
Margrét Eggertsdóttir fékk styrk til að gera rannsókn og vinna að útgáfu á sögulegu kvæði frá sautjándu öld: „Einvaldsóður - mannkynssagan í bundnu máli.“ Kvæðið Einvaldsóður er eftir sr. Guðmund Erlendsson (1595‒1670) í Felli í Sléttuhlíð. Í því er mannkynssagan frá Nóaflóði til siðbreytingar rakin í sex bálkum. Kvæðið var mjög vinsælt eins og sjá má af fjölda uppskrifta en það er varðveitt í a.m.k. 70 handritum. Verkefnið felst í því að gefa kvæðið út í bók með enskri þýðingu, fræðilegum inngangi og skýringum ásamt umfjöllun um handritin og dreifingu þeirra. Þórunn Sigurðardóttir vinnur verkið ásamt Margréti Eggertsdóttur en þær munu byggja á rannsóknum Roberts Cook sem lést árið 2011 og lét eftir sig mikilvæg gögn og athuganir um kvæðið og varðveislu þess.
Svanhildur Óskarsdóttir hlaut styrk til að kortleggja viðtökur rits frá 16. öld. Árið 1508 var prentuð í fyrsta sinn í Kaupmannahöfn apokrýf frásögn um Maríu, Jósef og uppvöxt Jesúbarnsins sem átti eftir að verða feikivinsæl í danska konungsríkinu og var endurprentuð margsinnis. Verkið, sem gengur undir nafninu „Jesu barndoms bog“, barst til Íslands og var þýtt eins og ýmsir aðrir textar um persónur og atburði í biblíunni sem prentaðir voru í dönskum almúgabókum. Slíkar þýðingar gengu í handritum á Íslandi en voru ekki prentaðar. Íslenskar gerðir af „Jesu barndoms bog“ hafa aldrei verið kannað né gefnar út. Vitað er um 13 handrit sem geyma prósagerð sögunnar en auk þess orti sr. Guðmundur Erlendsson í Felli (um 1595-1670) rímur út af þeim sem varðveittar eru í a.m.k. 46 handritum. Markmið verkefnisins er að kortleggja viðtökur „Jesu barndoms bog“ á Íslandi með því að kanna íslenska þýðingu — eða þýðingar — verksins, og tilurð og útbreiðslu Jesú rímna sr. Guðmundar.