Skip to main content

Fréttir

Ræða minnkandi lestur og lesskilning

 

Minnkandi áhugi íslenskra barna á lestri og dvínandi lesskilningur þeirra verður til umræðu á árlegu Málræktarþingi Íslenskrar málnefndar og Mjólkursamsölunnar laugardaginn 12. október. Yfirskrift málþingsins er „Æska í ólestri – mál okkar allra“ en það er haldið í tilefni af degi íslenskrar tungu sem fagnað er árlega á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember.

Líkt og undanfarin ár ályktar Íslensk málnefnd um stöðu íslenskrar tungu og að þessu sinni snýr ályktunin að minnkandi bóklestri og dvínandi lesskilningi íslenskra barna og unglinga, hver staðan sé í dag og til hvaða aðgerða þurfi að grípa til þess að snúa vörn í sókn.

„Við teljum mikilvægt að vekja athygli á að bóklestur er mikilvægur í máltöku og að lestur sé ekki aðeins grundvallarfærni í nútímasamfélagi, bæði í námi og starfi, heldur gegni bóklestur jafnframt mikilvægu hlutverki í því að byggja upp orðaforða barna og unglinga og þroska tilfinningu þeirra fyrir ólíkum málsniðum og stíltegundum. Við leggjum einnig áherslu á menntun kennaranema í íslensku og að allir þurfi að sameinast um það markmið að efla lestraráhuga barna og unglinga, börnin sjálf, foreldrar, uppalendur, skólakerfið og samfélagið allt,“ segir Guðrún Kvaran, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, stofustjóri Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og formaður Íslenskrar málnefndar.

Dagur íslenskrar tungu þörf áminning
Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur undanfarin ár, m.a. í flestum skólum landsins. Aðspurð hvort hún telji að tekist hafi að vekja athygli þjóðarinnar á stöðu tungunnar og gildi hennar með deginum segir Guðrún að áhugi á tungunni mætti vissulega vera meiri alls staðar í þjóðfélaginu. „Ég er þeirrar skoðunar að aldrei megi slaka á klónni og að dagur íslenskrar tungu sé þörf árleg áminning um móðurmálið og velferð þess,“ bætir hún við.

Lagaleg staða íslenskrar tungu hefur smám saman styrkst undanfarin ár eins og Guðrún bendir á. Alþingi samþykkti árið 2009 þingsályktunartillögu um íslenska málstefnu þar sem bent var á að tryggja þyrfti stöðu tungumálsins gagnvart lögum. Í framhaldinu var nefnd, sem Guðrún átti sæti í, falið að semja drög að frumvarpi til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Þetta frumvarp varð að lögum frá Alþingi í sumar og Guðrún telur að þar hafi verið stigið mikilvægt skref íslenskri tungu og íslensku táknmáli til stuðnings. „Það verður hér eftir ekki eins auðvelt að syndga upp á náðina þegar bæði er unnt að vísa í lög og málstefnu,“ bendir hún á.

Málræktarþing Íslenskrar málnefndar og Mjólkursamsölunnar fer fram þann 12. nóvember k. 11-14 í Skriðu, sal Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð.