Pétur Gunnarsson rithöfundur flutti erindið Árni Magnússon 350 ára á árshátíð Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum föstudaginn 1. mars. Erindið birtum við hér í heild sinni með leyfi höfundar.
Árni Magnússon 350 ára
Í Handritaspjalli sínu frá árinu 1958 víkur Jón Helgason að bókmenntaiðkun Íslendinga: „Íslendingar”, segir hann, „hafi verið flestum þjóðum iðnari að skrifa sér upp bækur, og það svo mjög að manni verður jafnvel spurn hvort þeir muni ekki einstakir í þessu efni á allri jarðarkringlunni... að yrkja og semja tína saman og þýða, stundum bæði af hæfileikum og elju, oft mest af elju.” Hann spyr hver geti verið skýringin og svarar sér sjálfur: að á bak við allar skýringar verði ævinlega eitthvað eftir „óskýrilegt og leyndardómsfullt”.
Um þetta er ævinlega gaman að brjóta heilann og ef okkur væri sjálfrátt væri það helsta umhugsunarefni þjóðarinnar, skólakerfið eins og það leggur sig, útvarpið og sjónvarpið væru ein samhangandi Árnastofnun. Sjálfur, þegar ég hugleiði þessa gátu ber mig ævinlega að landnáminu. Þessi einstæði atburður á sögulegum tíma: að sigla burt frá heimkynnum sínum og nema ónumið, ósnortið land. Allar þær milljónir heilafruma sem dorma í okkur hversdagsfólkinu en hljóta að virkjast þegar þarf að nefna allt upp á nýtt, flytja ekki einasta með sér búslóð og búfé heldur sjálfa heimsmyndina, því síst af öllu má hún gleymast: trúarbrögðin, siðirnir, ættirnar, sögurnar, ljóðin... Setjum okkur fyrir sjónir mannkyn sem ætti fyrir höndum að setjast að í öðru sólkerfi, allt sem þyrfti að rifja upp og reyna að muna, nefna og skíra, halda til haga og skrá... Sú iðja skal hafa verið ekki lítið frumglæði og frumkraftur íslenskrar menningar í árdaga og „lýsir sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld” svo gripið sé til orða skáldsins.
Loks er sjálft landið áreiðanlega einn lykill að undrinu, að eignast þetta gósenland sem hafði staðið ónýtt af mannfólki árþúsundum saman með upphlöðnum gnægtum sem nauð – og jarðvöðulsyrkjan eyddi upp á fáeinum öldum. Um þetta hefur bandarískur mannfræðingur, Jared Diamond, nýlega skrifað fróðlegan kafla í merkilegu verki sem ber heitið Collapse eða Hrun og fjallar um þjóðir sem gengu svo á lífsforða sinn að þær gengu fyrir ætternisstapann og lætur Íslendinga vera dæmi um fólk sem fór fram á brún hengiflugsins, en tókst að snúa við. Í stærra samhengi álítur hann að mannkynið sé um þessar mundir í þeim sömu sporum – að snúa við en tortímast ella.
Til er önnur þjóð sem gjarnan er kennd við bókmenntir – bókmenntaþjóð - og það eru Frakkar. Það er fróðlegt að bera þessar tvær þjóðir saman því önnur toppar þegar hin er í lægð. Það er ekki hátt risið á Frökkum á níundu öld um það leyti sem Ísland finnst og nemst og sáð er til þeirrar uppskeru sem verður á 12., 13. og 14. öld. Íslendingar aftur á móti eru á ilpunkti sinnar vegferðar þegar Sólkóngurinn skín skærast í Frakklandi, Lúðvík 14. Frönsk menning er aristókratísk, hástéttarmenning. Leiklistin er hin ríkjandi list hirðarinnar og óperan. Kóngar nenna ekki að lesa, þeir þurfa hirð, sjónarspil. Og helstu höfundar tímabilsins eru leikskáldin Corneille, Racine og Molière. Hafa má í huga að Voltaire var upphaflega misheppnað leikskáld og Rousseau misheppnað óperuskáld.
Sá kóngur danskur sem gekk lengst í að stæla Lúðvík 14., hinn galni Kristján sjöundi (1766-1808) lét flytja heilan leikflokk frá Frakklandi til að færa upp leikrit og óperur í höllinni. Sagt var að hann hefði eytt meiru í Þjóðleikhúsið en sjálfar landvarnirnar. Um það allt ritar og margritar Jón Grunnvíkingur sem sjálfur er stöðugt að bræða með sér að skrifa leikrit, á einum stað skrifar hann:
„… gjöra mætti dálaglegt LEIKRIT um ástand landsins og háttalag embættismanna sem optast gera ekkert og skipta sér af engu, en stundum hlaupa upp til handa og fóta af eintómum látaglaumi, alleinasta pro forma til að sýna stjórnsemi sína og vigilantiam, röggsemi, authoritatem eður gravitatem þó hún verði stundum nokkuð hlægileg og þar hjá slíkar brellur gjörðar til að incutera plebi metum (gera sig merkilega í augum fólks) og vekja stórhöfðingjahræðslu, líka setja þeim glaucoma á þeirra skilningsaugu."
Á öðrum stað segir hann að „það hafi verið að sér komið að gera skopleik um ástand landsins og stjórnarfar íslenskra valdsmanna og dylja undir dýranöfnum, enda væri slíkt helst gerandi fyrir þann er erlendis ætti heima og aldrei ætlaði að vitja Íslands aftur.”
En auðvitað var ekki nokkur vegur að leikritun og leikhús gætu náð fótfestu á hinu fátæka Íslandi átjándu aldar, jafnvel þótt Sigurður Pétursson sé á ferli í lok aldarinnar með tilburði í þá veru fer honum eins og hverjum öðrum suðrænum fugli sem vindar bera of langt norður á bóg. Það er ekki fyrr en árið 1862 að þeir félagar Matthías Jochumsson og Sigurður málari efna til gjaldgengrar leiksýningar með Útilegumönnunum. Og tímanna tákn að Þjóðleikhús eignumst við ekki fyrr en með lýðveldinu 1944, vígt árið 1950, en eitt af þremur vígsluleikritum var Snæfríður Íslandssól, unnin upp úr Íslandsklukku Halldórs Laxness.
Þar lætur skáldið þá Jón Marteinsson og Jón Hreggviðsson ráfa um Kaupmannahöfn að næturlagi og setjast inn á krá. Fljótlega verður þeim sundurorða út af Arnasi Arneusi og þá fer fram eftirfarandi samtal:
„Jón Marteinsson: Taktu aldrei mark á ófullum íslendingi. Íslendingum var af miskunnsömum guði sendur einn sannleiki og hann heitir: brennivín. Ég ætla að trúa þér fyrir leyndarmáli. Við eigum ekki nema einn mann.
Jón Hreggviðsson: Eigum við mann, hvurn?
Jón Marteinsson: Þennan eina mann. Og síðan aungvan meir. Ekkert meir.”
Undir þetta hefði Jón Grunnvíkingur örugglega tekið, þótt komið væri úr munni Jóns Marteinssonar. En samtíminn hefur verið á öðru máli ef marka má dóm Árna biskups Jónssonar um nafna sinn Magnússon árið sem sá síðarnefndi fór í annað ljós. Biskupinn skrifar svo í bréfi til prófessors Hans Gram:
„Varðandi dauða Árna Magnússonar er mér tvennt efst í huga: í fyrsta lagi hve gaumgæfilega hann hefur samanskrapað og héðan af landi brott flutt öll forn skrif varðandi gerðir Norðmannanna, sem sumir segja að hafi brunnið til ösku í K.höfn. Ennfremur að hann hefur sóað öllum sínum ævidögum til að sanka að sér sögum og lesa þær í gegn, en hefur ekki látið eftir sig neitt skrif eftirtímanum til handa, eftir því sem ég best veit, hvorki landsmönnum sínum til nota né öðrum; því er ekki að undra og er samkvæmt ráðstöfun okkar alvitra Herra og sem hann hefur viðhaft frá upphafi heimsins, að þegar einhver hefur hugsað um það eitt að eignast eitthvað sem ekki hefur þjónað til heiðurs Guði og andlegrar og eilífrar velferðar okkar hinna, þá hefur oft skjót eyðilegging dunið yfir. ...” Og vitnar síðan í Matth.6:19 um það sem mölur og ryð fá grandað.
Þetta hefði hæglega getað orðið grafskrift Árna í hugum Íslendinga, en sú varð öldungis ekki raunin. Ekki síst vegna þess að á honum hvíldu augu skrifara sem þau sex ár sem hann var í þjónustu meistara síns nam allt sem numið varð um manninn og skilaði því síðan í lýsingu sem mögulega er einhver ítarlegasta lýsing á einum manni í íslenskum bókmenntum og lesendur munu geta sannreynt í verki sem væntanlegt er á bókamarkað á hausti komanda - og verður áreiðanlega „jólabókin í ár”.
Þar gefst okkur að kynnast manninum, útliti hans og innliti, sigrum hans og ósigrum, eldsvoðanum sem uppsvalg ævistarf hans, dagfari hans og loks dauðastríði í þvílíkum smáatriðum að göngudeild Landspítalans væri fullsæmd af. Og klykkt út með andlátsorðunum: „Nu kommer kongen!”.
Að vísu gilti sama um það ritverk Jóns og annað sem úr hans penna flaut, það þurfti í það minnsta 200 ára meðgöngutíma áður en það leit dagsins ljós, en þá var líka til staðar annar prófessor og annar skrifari til að umskapa frásögnina í þríleikinn mikla um Íslandsklukkuna. Eftir það varð ekki aftur snúið og Árni mátti upplifa einn eldsvoðann til þegar hann brann upp á 100 krónu seðli í verðbólgubáli seint á tuttugustu öld.
Ágæta samkoma! „Það er ekki tíminn sem líður, það erum við” segir í verki eftir franska sextándualdarskáldið Pierre Ronsard. Kynslóðir koma hver á fætur annarri eins og kvikar öldur, stundum er fjaran tandurhrein eins og hafi verið farið um hana með fægiklút, stundum ill yfirferðar af þarabrúki og þönglabendum. Þessu stjórna okkur ósýnlegir kraftar á himni, jörð og hafdjúpum. Þannig er líka um tímana, stundum eru þeir að því er virðist sléttir og felldir, öðrum stundum fullir af atburðum. Veröld Árna og Jóns var dauðanum merkt og öldin ekki öll áður en sjálfur Frakkakonungur var leiddur undir fallöxina. En löngu áður hafði reyndar Kópernikus hoggið heimsmynd þeirra af feyskinni rót – „og hent sem litlum steini út í myrkur og tóm”, svo vitnað sé til samnefnds ljóðs eftir Hannes Pétursson. Og að breyttu breytanda má segja það sama um veröld okkar, við vitum hvert óbreyttir lifnaðarhættir leiða okkur. En það tekur tíma að snúa mannkynsfleyinu nú sem þá. Eftir segjum 350 ár verður ugglaust jafn mikið djúp staðfest á milli okkar og hinna sem þá verða á dögum og milli okkar og kynslóðar Árna Magnússonar. Eða hvort hefðu þeir félagar, Árni og Jón, ekki fengið stjörnur í augun ef þeim hefði vitrast vitneskjan um ljósritunarvélina, skannann, tölvupóstinn og yfir höfuð samgöngumöguleika manna á millum sem við búum við. Eða segið híbýlakostinn. Þegar Árni tekur til við Jarðabókina á fyrstu árum átjándu aldar telst honum til að aðeins sjö hús í öllu landinu búi við ofn. Og samt voru fallvötnin þarna allan tímann og hitinn í iðrum jarðar. Aðeins átti eftir að finna upp rafurmagnið, það er menn höfðu fyrir lifandis löngu veitt sjálfu fyrirbærinu athygli, orkunni sem myndaðist þegar tilteknir hlutir nerust saman. En það átti eftir að finna upp tækni til að magna fyrirbærið upp og virkja það. Hugsa sér að forfeður okkar, og þá ekki síst formæður, skuli hafa skolfið úr öllum þessum kulda og verið svona orkulaus – mitt í allsnægtunum. Fyrsta vatnsaflsstöð á Íslandi var reist árið 1904 í Hafnarfirði, réttum tvö hundruð árum eftir að Árni gerði athugun sína um ofnleysið. En maður spyr sig: hefði það ekki getað gerst miklu fyrr? Þetta er svo sára einfalt einusinni þegar búið er að setja túrbínu í bæjarlækinn. Og manni verður á að hugsa: er kannski eitthvað áþekkt í okkar samtíma? Eitthvað sem við komum ekki auga á en seinni tímar eiga eftir að sjá? Eitthvað sem var þarna kannski allan tímann og gæti létt okkur lífið. Gerbreytt því jafnvel?
Í pistli sínum síðastliðinn mánudag stakk Guðmundur Andri Thorsson upp á því að við hugleiddum út vikuna orðið „yndisarð” sem Jónas Hallgrímsson skóp og lét koma fyrir í Hulduljóðum þar sem talað er um blinda menn sem „unna því lítt sem fagurt er/telja sér lítinn yndisarð/að annast blómgaðan jurtagarð.” Hver veit nema eftir 350 ár verði yndisarður mælikvarðinn í stað hagvaxtar. Að mannlífið lúti fyrst og fremst fagurfræðilegum kröfum. Að orð Dostoveskís eigi jafnvel eftir að rætast um að „fegurðin muni bjarga heiminum.”
árni magg (4) – 1.03.13
Pétur Gunnarsson