Í ráði er að hefja kennslu í íslensku við Beijing Foreign Studies University nú í haust. Gert er ráð fyrir að tólf kínverskir úrvalsnemendur leggi stund á íslensku sem aðalgrein við BFSU í fjögur ár. Auk íslensku læra þau ensku, sögu og alþjóðatengsl. Mikil samkeppni er um að komast inn í skóla þennan sem hefur mjög gott orðspor í Kína. Talsverður hluti starfsmanna kínversku utanríkisþjónustunnar er útskrifaður þaðan. Sendiráð Íslands telur að hópur sem þessi verði Íslandi og samskiptum ríkjanna til lengri tíma ótvírætt til framdráttar. Að fjórum árum liðnum er gert ráð fyrir að aftur verði kallaður til svipaður hópur og nýr fjögurra ára námsferill hefjist.
Sænska hefur lengi verið kennd við skólann og fyrir nokkrum árum var hafin finnskukennsla. Nú hefur norska bæst við og áfrom eru um að hefja dönskukennslu. Talsvert íslenskt bókasafn er við skólann sem byggist á gjöfum menntamálaráðherra og einkaaðila.
Um sextán Evrópuríki hafa nú sendikennara við skólann og leggur skólinn þeim til íbúð (stærð fer eftir fjölskylduhögum) með húsgögnum og sjónvarpi og laun sem nema 4.300 til 5.800 RMB á mánuði. (Gengi RMB er um 9,50 krónur). Sú upphæð er hér talin duga þeim sem eru reiðubúnir að semja sig að kínverskum lífsstíl.
Menntamálaráðuneytið hefur nú falið Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁ), Stofu Sigurðar Nordals, að leita að íslenskukennara til að koma íslenskukennslu á við skólann á haustmisseri 2008 - september - desember, sem væri reiðubúinn til að taka að sér kennsluna fyrir þau launakjör sem í boði eru við skólann. Ráðuneytið hefur ákveðið að styrkja verkefnið með 400 þús. kr. Alls óvíst er á þessari stundu um hvernig kennslunni verður fram haldið á vormisseri 2009.
Ekki er krafist kínverskukunnáttu en þekking á málinu og ekki síður málefnum Kína væri kostur. Stefnan er sú að kennsla fari sem mest fram á íslensku. Ganga má þó út frá þokkalegri enskukunnáttu nemenda. Sá sem þetta verkefni tæki að sér yrði félagslega hluti af þessu litla samevrópska samfélagi sem býr í íbúðum inni á háskólasvæðinu. Sendiráðið hefur einnig skuldbundið sig til að aðstoða eftir föngum.
SÁ mun útvega kennslugögn.
Þeir sem hafa hug á að vera í Bejing í fjóra mánuði á haustmisseri og koma af stað íslenskukennslu geta haft samband við Úlfar Bragason, netfang: ulfarb [hjá] hi.is, sími: 562 6050.