Skip to main content

Fréttir

Orti Egill Sonatorrek? Hljóðupptaka á vefnum


Klaus Johan Myrvoll flutti erindið Orti Egill Sonatorrek? í Odda, stofu 101 þann 8. desember. Hægt er að hlusta á erindið á vefnum:

Erindið var flutt á norsku og höfundur lýsti efni þess svo:

,,Mikið hefur verið deilt um hvort sá kveðskapur sem varðveittur er í íslenskum miðaldaritum sé raunverulega eftir þau skáld sem þar er greint frá. Þetta gildir sérstaklega um þau kvæði og lausavísur sem varðveitt eru í Íslendinga sögum en einnig hafa efasemdir komið fram um einstök kvæði í konungasögum. Fræðimenn hafa tekið fjölbreytilega afstöðu til málsins. Ein skoðun er að vitnisburður heimildanna sé í flestum tilfellum réttur (svo t.d. Finnur Jónsson) en önnur að mikið hafi verið ort inn í sögurnar um leið og þær voru samdar (svo t.d. Bjarni Einarsson). Þau rök sem fram hafa komið beinast fyrst og fremst að málsögulegum og stílfræðilegum atriðum.

Í doktorsverkefni mínu reyni ég að feta aðra og hlutlægari leið, með því að nýta bragfræðileg auðkenni til að greina kvæðin í mismunandi aldurslög. Auðkenni af þessu tagi eru meðal annars ólík áherslumynstur og notkun og staðsetning hendinga. Í erindinu verða bragfræðileg rök kynnt og sýnt hvernig þau nýtast til að tímasetja kvæði. Þar næst verður farið gaumgæfilegar yfir tvö tiltekin auðkenni í samhengi við tiltekið efni: Annars vegar mismunandi áherslumynstur í kviðuhætti (sem hefur m.a. afleiðingar fyrir tímasetningu Ynglingatals og Sonatorreks) og hins vega breytingar í notkun hendinga á níundu og tíundu öld."

Klaus Johan Myrvoll vinnur að doktorsritgerð um dróttkvæði við háskólann í Ósló. Hann hefur í haust verið fræðimaður á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.