Skip to main content

Fréttir

Orðasafn um íslenskan fiskiðnað

Úr íslensku orðasafni um fiskiðnað eftir Owe Gustavs.

 

Fyrir skömmu barst orðfræðisviði stofnunarinnar að gjöf íslenskt orðasafn frá dr. Owe Gustavs í Hiddensee í Þýskalandi. Hann starfaði við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Institut für Hochseefischerei und Fischverarbeitung) í Rostock um langt árabil, einkum við þýðingar texta á norðurlandamálum og rússnesku. Orðasafnið snertir sérstaklega orðafar um fiskiðnað og eru dæmi um orðanotkun að verulegu leyti fengin úr tímaritinu Ægi og Þjóðviljanum. Owe Gustavs vann að þessu orðasafni í frístundum sínum á árunum 1966-1997 og telur það nú alls um 20 þúsund seðla.

Owe Gustavs er fæddur árið 1939. Hann lagði stund á rússnesku við Háskólann í Greifswald og lauk kennaraprófi í þeirri grein árið 1963. Sama ár réðst hann til starfa við Institut für Hochseefischerei und Fischverarbeitung í Rostock og hóf þá fljótlega sjálfsnám í norðurlandamálum, einkum íslensku. Árið 1974 lauk hann svo doktorsprófi í íslenskri málfræði frá Háskólanum í Greifswald og hefur ritað margar fræðigreinar á því sviði. Auk þess hefur Owe Gustavs þýtt nokkur íslensk skáldverk á þýsku, m.a. sögur eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson.

Orðasafnið er ánægjuleg og kærkomin viðbót í gagnasöfn stofnunarinnar um íslenskan  orðaforða og orðanotkun. Það veitir nýja og gleggri yfirsýn um mikilvægt svið orðaforðans sem ástæða er til að huga betur að. Um leið vitnar það um sterk menningartengsl Íslands og Þýskalands og vakandi áhuga þýskra fræðimanna  á íslensku máli og menningu.

Úr íslensku orðasafni um fiskiðnað.