Skip to main content

Fréttir

Orð ársins - til hvers?

Hrútskýring er orð ársins 2016.

 

Orð ársins var valið í annað skipti um nýliðin áramót. Sem fyrr voru það RÚV, Mímir – Félag stúdenta í íslenskum fræðum og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem stóðu fyrir valinu. Áhugi almennings á orði ársins hefur greinilega aukist því að mun fleiri tóku þátt í valinu nú en í fyrra.

Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, segir að í bæði skiptin hafi verið leitað eftir orðum sem voru áberandi eða á einhvern hátt einkennandi fyrir umræðuna á árinu.

En hvers vegna er verið að velja orð ársins?

„Hugmyndin kviknar einfaldlega vegna þess að þetta er gert í flestum okkar nágrannalöndum. Þar eru notaðar margvíslegar aðferðir til að velja orð ársins, í sumum löndum er dómnefnd sem velur orðið en annars staðar getur almenningur kosið um orð ársins. Þegar stóra íslenska málheildin verður tilbúin hef ég áhuga á að nýta hana við valið á þeim orðum sem kosið verður um. Eitt helsta viðmiðið við val á orði ársins er að það hafi verið áberandi og mikið notað á árinu og íslenska málheildin gefur vísbendingar um breytingar á orðaforðanum. Norðmenn nota einnig máltækni við undirbúning á orði ársins en þar er dómnefnd sem velur hvaða orð verður fyrir valinu. Málheildin ætti að geta hjálpað okkur að finna orðin sem hafa verið áberandi og því ætti að vera auðveldara að finna orð sem landsmönnum gefst svo kostur á að kjósa um.“

Hrútskýring er það orð sem rúmur þriðjungur þeirra sem kusu taldi best standa undir titilinum orð ársins. Hver eru viðbrögð málfræðingsins?

Ágústa er sátt við orð ársins: „Hrútskýring er gott orð, greinilega myndað úr orðunum „hrútur“ og „skýring“ eða ef nánar er að gáð styttingunni „hr.“ og „útskýring“.  Vitað er að rithöfundurinn Hallgrímur Helgason bjó orðið til, sem er skemmtileg staðreynd því að oft veit maður ekkert um uppruna og höfunda orða. Orðmyndunin er óvenjuleg vegna þessara tveggja möguleika sem í orðinu felast. Það gerist ekki oft að ný orð séu mynduð á þennan margræða hátt.“

Telurðu að við eigum að halda áfram að velja orð ársins um hver áramót?

Ágústa Þorbergsdóttir.

„Já, það hefur sýnt sig að Íslendingar hafa áhuga á orðum, nýjum og gömlum og einnig gömlum orðum sem fá nýja merkingu. Svona opin kosning fær fólk til að hugsa um orðin og tungumálið en það er erfitt að gera öllum til hæfis þegar aðeins eru valin fá orð til að kjósa á milli. Þess vegna renni ég hýru auga til þess að nýta máltæknina til að sjá hvaða orð voru raunverulega í uppsveiflu hvert ár."