Skip to main content

Fréttir

Orð ársins 2022

Orð ársins 2022: Innrás

Eitt af fjölmörgum verkefnum Árnastofnunar er Risamálheildin svokallaða. Hún inniheldur rúmlega 2.4 milljarð orða sem einkum eru fengin úr textum vef- og prentmiðla, af samfélagsmiðlum og úr opinberum skjölum. Með því að bera saman tíðni orða nýliðins árs og áranna á undan er hægt að kalla fram lista yfir ný orð eða orð sem komu mun oftar fyrir á liðnu ári en árin á undan. 

Auðvitað er skemmtilegast þegar nýtt orð birtist á listanum, sem bæði segir okkur eitthvað um samtímann og hefur náð mikilli útbreiðslu. En svo var ekki fyrir að fara þetta árið. Nokkur ný orð komu fram, eins og kærleikskæfing, kúltúrbarn og kynþáttamörkun, en ekkert þeirra náði svo mikilli útbreiðslu á seinasta ári að réttlætanlegt sé að velja það sem orð ársins. Nokkur eldri orð voru mun meira í umræðunni en árin á undan, eins og til að mynda stýrivaxtahækkun, orkukreppa og neyðarbirgðir. En það orð sem náði bæði miklu flugi og er hvað mest lýsandi fyrir samtímann og umræðuna er orðið innrás, en það kemur næstum sjö sinnum oftar fyrir í ár en að meðaltali áratuginn á undan.

Frá því að Rússar gerðu innrás í Úkraínu hefur umræðan verið lituð af stríðinu þar og tróna ýmis orð tengd Úkraínu og Rússlandi á toppi yfir þau orð þar sem notkun hefur margfaldast frá fyrri árum. Fyrir utan fjölda mannanafna og staðarheita sem lítið fór fyrir áður, eins og Selensky og Maríupóll, þá má nefna orðin stríðsrekstur, herkvaðning, hergögn, gasleiðsla og innrásarher

Pútin er sjálfsagt ekki sáttur við val stofnunarinnar á orði ársins í þetta skiptið því að hann hefur frá upphafi lagt áherslu á að ekki væri um að ræða innrás, heldur sértækar hernaðaraðgerðir.

Erfitt er að sjá hvenær orðið innrás kemur fyrst inn í tungumálið. Það er ekki að finna í fornmálsorðabókinni í Kaupmannahöfn þótt þar sé að finna orðin árás og atrás. Elsta dæmið sem við fundum um notkun orðsins er af vefnum Tímarit.is en í Skírni árið 1872 er minnst á innrásir sem Guiseppe Mazzini stóð fyrir með það fyrir augum að „reisa þjóðvald og þjóðarsamband á Ítalíu“.

Seinni liður orðsins innrás er rás sem samkvæmt nútímaorðabók getur m.a. merkt lítill skurður eða renna sem vatn rennur eftir, eða framvinda. Gömul merking þess er hins vegar „hlaup“ enda eru orðin árás og áhlaup merkingarlega náskyld. Þessi merking hefur t.a.m. lifað í orðatiltækinu „að taka á rás“.