Skip to main content

Fréttir

„og volsa mikið í veröldinni, en vita hvorki á né b“

Nafnfræðifélagið heldur fræðslufund laugardaginn 22. september 2018, kl. 13.15 í stofu 202 í Odda, húsi Háskóla Íslands. Aðalsteinn Hákonarson, verkefnisstjóri á nafnfræðisviði Árnastofnunar, flytur fyrirlestur sem hann nefnir:

„og volsa mikið í veröldinni, en vita hvorki á né b“. Úr sögu íslensku bókstafanafnanna

Íslensku bókstafanöfnin eru orðin sem við nefnum með bókstafi íslenska stafrófsins, a, á, bé, dé, e, é, eff o.s.frv. Í íslenska stafrófinu eru bókstafir sem teknir voru að láni úr latínu (farið var að rita íslensku með latneskum stöfum á 11. eða 12. öld), en einnig eru þar bókstafir sem ekki voru notaðir í latínu. Ætla má að bókstafanöfnin hafi verið tekin að láni með sjálfum bókstöfunum, ýmist úr latínu eða annars staðar frá. Nöfnin hafa hins vegar tekið nokkrum breytingum í tímans rás, bæði í samræmi við almenna hljóðþróun í íslensku, en einnig af öðrum ástæðum. Sér í lagi urðu miklar breytingar á nöfnum sérhljóða á 19. öld sem tengjast bæði þróun í stafsetningu og breyttum skilningi á hugtakinu bókstafur.

Í fyrirlestrinum verður saga íslensku bókstafanafnanna rakin í meginatriðum. Í fyrri hlutanum verður fjallað um nöfn samhljóðenda og stuttlega vikið að umfjöllun um nöfn þeirra í íslensku málfræðiritgerðunum sem fylgja handritum Snorra-Eddu. Einnig verða kynntar vísur sem Jón Ólafsson úr Grunnavík samdi um samhljóðendur og er að finna í handriti hans að orðabók yfir íslensku. Í síðari hlutanum verður síðan fjallað um nöfn sérhljóða, en eins og nefnt var að ofan tóku þau miklum breytingum á 19. öld. Víst er að Gunnar Pálsson (1714–1791), höfundur hinna sígildu íslensku stafrófsvísna, nefndi sérhljóðana á annan hátt en núna tíðkast.