Skip to main content

Fréttir

Nýtt rit um menningu og listir á 17. öld - Í ljóssins barna selskap


Nýlega kom út ritið Í LJÓSSINS BARNA SELSKAP, þar sem prentaðar eru greinar unnar upp úr fyrirlestrum frá ráðstefnu sem haldin var í Hallgrímskirkju 28. október 2006.

Höfundarnir ellefu koma frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi og fjalla um ýmsar hliðar menningar og lista á 17. öld. Mest fer fyrir bókmenntafræði en einnig er hér fjallað um heimspeki, guðfræði, tónlist og myndlist.

  • Wilhelm Friese gefur yfirlit yfir aldarfar 17. aldar.
  • Stina Hansson sýnir fram á að passíusálmar Hallgríms Péturssonar séu dæmi um íhugunarrit, en
  • Gunnar Harðarson lýkur upp fyrir lesendum hvernig dulúð miðalda bergmálar í íhugunarriti Hallgríms Sjö guðrækilegum umþenkingum.
  • Einar Sigurbjörnsson fjallar um hvernig sálmar Hallgríms byggja á lútherskri túlkun Ritningarinnar.
  • Laila Akslen ræðir um muninn á skáldskap norsku barokkskáldanna Petter Dass og Dorothe Engelbretsdatter.
  • Hubert Seelow tekur fyrir rímnakveðskap Hallgríms og grefst fyrir um heimildir hans.
  • Þórunn Sigurðardóttir fjallar um prestskáldið Guðmund Erlendsson í Felli í samhengi við skáldskap Hallgríms og tíðaranda 17. aldar.
  • Sigurður Pétursson rýnir í latínukvæði sr. Stefáns Ólafssonar í Vallanesi, einkum ljóðabréf til vina hans.
  • Sigrún Steingrímsdóttir veltir fyrir sér áhrifum tónlistar á hrynjandi í passíusálmunum.
  • Þóra Kristjánsdóttir grefst fyrir um uppruna myndar af Hallgrími sem varðveitt er í Þjóðminjasafninu. Að lokum fjallar
  • Margrét Eggertsdóttir um tengsl hugtakanna barokk og yfirvald.

Bókin er 134 blaðsíður, gefin út af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Listvinafélagi Hallgrímskirkju. Viðmiðunarverð er kr. 2000. Háskólaútgáfan sér um dreifingu.