Skip to main content

Fréttir

Ný sýnisbók handrita: 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar

(Fréttatilkynning frá Bókaútgáfunni Opnu 13.11.2013)

 

MEÐ BÆKUR Á HEILANUM

Í dag kemur út bókin 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar, sem gefin er út í tilefni þess að 350 ár eru liðin frá fæðingu hins stórtæka bókasafnara, Árna Magnússonar. Lesendum gefst kostur á að kynnast þeirri fjölskrúðugu auðlegð sem Árni bjargaði frá glötun á sínum tíma. Gersemarnar hafa fram til þessa verið lítt aðgengilegar almenningi. Alls eru um 3000 handrit í safninu frá miðöldum og síðari öldum.[Mynd 1]

Staldrað er við 66 handrit úr safni Árna, eitt fyrir hvert ár sem hann lifði, og þeim lýst í máli og einstökum myndum. 33 handritanna eru varðveitt í Reykjavík og önnur 33 í Kaupmannahöfn. Jafnframt eru skoðuð nokkur af fjölmörgum fornbréfum sem safnið varðveitir. Svanhildur Óskarsdóttir hefur ritað glöggan inngang um Árna og ástríðu hans, og þær Laufey Guðnadóttir og Soffía Guðný Guðmundsdóttir bregða ljósi á handverkið sem tíðkaðist við bókagerð á miðöldum. Alls eiga 35 fræðimenn texta í verkinu, innlendir og erlendir.

Hið stórmerka safn handrita sem varðveitt er undir nafni Árna Magnússonar er gríðarlega fjölbreytilegt, eins og kemur fram í þessari bók. Þarna má finna bókmenntir og fræði, guðsorð og lögbækur, dagatöl og söngbækur, svo eitthvað sé nefnt. Sum handritin eru slitur eða laus blöð, meðan önnur eru þverhandarþykkar bækur í góðu ásigkomulagi. Handritin í safni Árna eru ekki öll íslensk að uppruna, t.d. er elsta handritið ættað frá Spáni. Mörg bera þess vitni að þeim var bjargað á elleftu stundu, löskuð og velkt, önnur hafa varðveitt upprunalegan glæsileik þannig að undrun og aðdáun vekur. Þau eiga það eitt sameiginlegt að vera ómetanlegar heimildir, sem verðskulda að vera komnar á varðveisluskrá UNESCO, enda eiga þau erindi við heiminn allan.

Bókaútgáfan Opna gefur bókina út í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Den Arnamagnæanske Samling í Kaupmannahöfn.

Bókin er 232 blaðsíður, ríkulega búin myndum og öll litprentuð.

Líba Ásgeirsdóttir annaðist hönnun og umbrot.

Prentsmiðjan Oddi sá um prentvinnslu.

66 handrit bókarkápa.