Skip to main content

Fréttir

Níunda LREC-ráðstefnan

LREC - Hluti af stúdentahópnum og staðarnefndinni.

 

Níunda LREC-ráðstefnan var haldin í Hörpu dagana 26.–31. maí sl. LREC (Language Resources and Evaluation Conference) er haldin annað hvert ár og er viðamesta máltækniráðstefna heims. Ráðstefnuna sóttu um 1200 þátttakendur frá 75 löndum og var þessi ráðstefna því álíka fjölmenn og stærstu ráðstefnur sem áður hafa verið haldnar í þessari röð.

Alls bárust um 1200 tillögur um fyrirlestra og voru um 760 erindi samþykkt. Þessi erindi voru kynnt í fyrirlestrum og með veggspjöldum á aðalráðstefnunni sem stóð dagana 28.–30. maí. Öll erindin eru nú aðgengileg á vef ráðstefnunnar.

Dagana 26., 27. og 31. maí voru haldnar vinnustofur og námskeið, alls 31 að tölu.

Viðfangsefni ráðstefnunnar og vinnustofanna voru mjög fjölbreytt, þótt þau tengist yfirleitt hvers kyns rafrænum mállegum gögnum og vinnu með þau. Þar má nefna gerð orðabóka og orðasafna; uppbyggingu málheilda og textasafna; vélrænar og tölvustuddar þýðingar; gerð talgreina og talgervla; greiningu, samræmingu og útgáfu forntexta; gerð villuleitar- og leiðréttingarhugbúnaðar; smíði hvers kyns mállegra greiningarforrita; höfundarétt og lög um rafræn gögn; o.s.frv. Fyrirlestrar sem voru fluttir á vinnustofunum verða allir aðgengilegir á heimasíðum vinnustofanna.

Að ráðstefnunni stóðu samtökin ELRA, European Language Resources Association, í samvinnu við Máltæknisetur (samstarfsvettvang Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Árnastofnunar) og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Ráðstefnan var haldin undir verndarvæng UNESCO.

Fræðimenn frá öllum þessum stofnunum mynduðu undirbúningsnefnd sem starfaði með erlendu ráðstefnuhöldurunum. Undirbúningshópinn skipuðu: Auður Hauksdóttir frá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Eiríkur Rögnvaldsson prófessor frá Háskóla Íslands (formaður), Hrafn Loftsson dósent frá Háskólanum í Reykjavík, Kristín Bjarndóttir rannsóknarlektor frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Margrét Guðmundsdóttir verkefnisstjóri frá Háskóla Íslands og Sigrún Helgadóttir frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem var ritari nefndarinnar. Hrafn Loftsson var jafnframt fulltrúi Íslendinga í dagskrárnefnd ráðstefnunnar. Sú nefnd ákvað hvaða erindi yrðu samþykkt á ráðstefnuna. Í vísindanefnd ráðstefnunnar voru um 970 fræðimenn frá mörgum löndum, m.a. 4 íslenskir fræðimenn (Eiríkur, Kristín, Sigrún og Hannes Högni Vilhjálmsson í HR). Hver grein var lesin af þremur sérfræðingum sem gáfu einkunnir og umsögn. Á grundvelli einkunnanna ákvað dagskrárnefndin hvaða greinar skyldu samþykktar. Sautján einstaklingar, m.a. ráðherrar, rektorar háskólanna og borgarstjórinn í Reykjavík, samþykktu að vera í eins konar heiðursnefnd ráðstefnunnar.

Irina Bokova, aðalframkvæmdastjóri Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), var gestur ráðstefnunnar mánudagsmorguninn 26. maí. Þeir sem sóttu vinnustofur þann dag söfnuðust saman í einum ráðstefnusalnum til þess að hlýða á ávarp frú Bokovu. Ávarpið var tekið upp og síðan flutt við formlega opnun ráðstefnunnar að morgni 26. maí. Þar fluttu einnig ávörp Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Vigdís Finnbogadóttir velgjörðarsendiherra UNESCO fyrir tungumál og fyrrverandi forseti, Jón Gnarr borgarstjóri og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor, formaður íslenska undirbúningshópsins. Einnig töluðu Nicoletta Calzolari, formaður ELRA og forseti ráðstefnunnar og Khalid Choukri, aðalritari samtakanna.

Stúdentar frá HÍ og HR sem stunda nám í máltækni eða málvísindum auk nokkurra erlendra stúdenta aðstoðuðu við skráningu og fleira sem sjálfboðaliðar. Alls tóku 29 stúdentar þátt í verkefninu.

Ráðstefnan var frábær vettvangur fyrir íslenskt fagfólk og fyrirtæki á sviði upplýsingatækni til að kynna sér nýjungar í máltækni og komast í samband við fremstu sérfræðinga heims á þessu sviði. Það er trú þeirra sem tóku þátt í að undirbúa ráðstefnuna að hún hafi verið mikil lyftistöng fyrir íslenska máltækni og íslenskar málrannsóknir og hafi vakið athygli ráðamanna og almennings á mikilvægi máltækni sem er lykillinn að framtíð tungunnar.

Ávarp Jóns Gnarr borgarstjóra (word, 47 kb)
Ávarp Vigdísar Finnbogadóttur (word, 25 kb)
Ávarp Ástu Magnúsdóttur (word, 16 kb)
Ávarp Eiríks Rögnvaldssonar (word, 26 kb)