Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor í íslensku, sýnir nemendum handrit. Nemendur á námskeiðinu ÍSL205G Íslensk bókmenntasaga til 1900 komu í heimsókn og skoðuðu handrit þeirra fjögurra texta sem þau lesa meðfram bókmenntasögunni, þ.e. Íslendingabókar, Sneglu-Halla þáttar, Þorláks sögu helga og Króka-Refs sögu.
Í hópnum eru einkum íslenskunemar á fyrsta námsári en kennari þeirra, Aðalheiður Guðmundsdóttir, segir mikilvægt að handritin séu kynnt sem fyrst fyrir nemendum í íslensku og skyldum greinum. Guðvarður Már Gunnlaugsson, sem hefur um árabil kennt handritafræði, tók á móti hópnum.
Fámennari en engu síður áhugasamur hópur nemenda kom úr Listaháskóla Íslands. Þar voru á ferðinni þrír skiptinemar frá Þýskalandi, Svíþjóð og Austurríki sem taka þátt í fimm vikna vinnustofu með yfirskriftina Art and Communal Space undir stjórn myndlistarmannanna Libiu Castro and Ólafs Árna Ólafssonar. Þar er lögð áhersla á að listnemar fari út úr öruggu umhverfi sinnar menntastofnunar og hitti fagfólk í ólíkum greinum. Gísli Sigurðsson tók á móti nemendunum, sýndi þeim þau listaverk sem handrit geta verið og gerði nemana enn forvitnari um íslenska tungu, svo mjög að þeir skipuleggja nú aðra heimsókn á stofnunina og er þá ferðinni heitið á orðfræði- og málræktarsvið á Laugavegi 13.