Skip to main content

Fréttir

Nemendur streyma að Árnastofnun

Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor í íslensku, sýnir nemendum handrit. Nemendur á námskeiðinu ÍSL205G Íslensk bókmenntasaga til 1900 komu í heimsókn og skoðuðu handrit þeirra fjögurra texta sem þau lesa meðfram bókmenntasögunni, þ.e. Íslendingabókar, Sneglu-Halla þáttar, Þorláks sögu helga og Króka-Refs sögu. 

Í hópnum eru einkum íslenskunemar á fyrsta námsári en kennari þeirra, Aðalheiður Guðmundsdóttir, segir mikilvægt að handritin séu kynnt sem fyrst fyrir nemendum í íslensku og skyldum greinum. Guðvarður Már Gunnlaugsson, sem hefur um árabil kennt handritafræði, tók á móti hópnum.

 

Alma Lucia Balmes frá Þýskalandi, Annie Eliasson frá Svíþjóð og Sarah Rinderer frá Austurríki fá leiðsögn hjá Gísla Sigurðssyni rannsóknarprófessor.

 

Fámennari en engu síður áhugasamur hópur nemenda kom úr Listaháskóla Íslands. Þar voru á ferðinni þrír skiptinemar frá Þýskalandi, Svíþjóð og Austurríki sem taka þátt í fimm vikna vinnustofu með yfirskriftina Art and Communal Space undir stjórn myndlistarmannanna Libiu Castro and Ólafs Árna Ólafssonar. Þar er lögð áhersla á að listnemar fari út úr öruggu umhverfi sinnar menntastofnunar og hitti fagfólk í ólíkum greinum. Gísli Sigurðsson tók á móti nemendunum, sýndi þeim þau listaverk sem handrit geta verið og gerði nemana enn forvitnari um íslenska tungu, svo mjög að þeir skipuleggja nú aðra heimsókn á stofnunina og er þá ferðinni heitið á orðfræði- og málræktarsvið á Laugavegi 13.