Skip to main content

Fréttir

Miðaldastofa: Viktorsklaustrið í París og norrænar miðaldir

 

Árnagarður.

 

Fimmtudaginn 3. apríl kl. 16.30 flytur Gunnar Harðarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, fyrirlesturinn Viktorsklaustrið í París og norrænar miðaldir. Fyrirlesturinn er á vegum Miðaldastofu og verður fluttur í Árnagarði, stofu 301.

Viktorsklaustrið í París og norrænar miðaldir

Klaustur heilags Viktors, sem var staðsett rétt utan borgarmúra Parísar, var á 12. öld eitt helsta lærdómssetur síns tíma. Það var stofnað í kjölfar þess að Vilhjálmur af Champeaux, kennari við dómkirkjuskólann í París, beið lægri hlut í rökræðum við heimspekinginn Abélard um eðli almennra hugtaka og dró sig í hlé í gamla klaustursellu. Vilhjálmur var þó ekki lengi í gömlu sellunni, heldur gerðist biskup í Chalons, en klaustrið sem hann stofnaði varð á skömmum tíma víðfrægt fyrir góða lærimeistara og þangað sóttu síðar menn á borð við Pétur Comestor sem skrifaði Historia Scholastica sem var vel þekkt á Íslandi og Pétur Langbarða sem samdi Sentensíubók þá sem lengi vel var lögð til grundvallar guðfræðikennslu í háskólum 13. og 14. aldar.

Viktorsklaustrið var kanúkaklaustur og sameinaði lifnaðarhætti klausturbræðra og lærdómsiðkun og laut sérstakri reglu sem Gilduin, fyrsti ábóti þess, samdi. Klaustrið vék sem helsta miðstöð lærdómsiðkunar eftir því sem háskólinn í París efldist en starfaði óslitið fram að frönsku byltingunni. Á miðöldum höfðu bæði Íslendingar og Norðmenn nokkur tengsl við klaustrið: Eiríkur og Þórir erkibiskupar voru reglubræður í klaustrinu og hugsanlegt er að Þorlákur helgi hafi dvalist þar, auk þess sem Helgafellsklaustur er sagt lúta Viktorsreglu á síðmiðöldum. Hvert var aðdráttarafl Viktorsklaustursins, hver er saga þess á 12. öld og hverjir voru helstu meistarar sem kenndu þar? Hvernig var tengslum Norðmanna og Íslendinga við klaustrið háttað og hvaða heimildir eru til um þau tengsl? Í fyrirlestrinum verður reynt að ræða þessar spurningar með það fyrir augum að gera sér heildarmynd af sambandi klaustursins við Noreg og Ísland.

Gunnar Harðarson er prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Rannsóknir hans lúta einkum að íslenskri heimspekisögu, listheimspeki og miðaldafræðum.

Fyrirlestraröð Miðaldastofu um klausturmenningu á Íslandi og Norðurlöndum á miðöldum

miðaldastofa.hi.is