Skip to main content

Fréttir

Margmenni í Eddu sumardaginn fyrsta

Leikskólabörn á sviði snúa baki í okkur. Fjöldi fólks stendur á móti þeim og hlýðir á.
Kvæðabarnafjelag Laufásborgar
SSJ

Sumardaginn fyrsta, 20. apríl, var opið hús í Eddu. Almenningi var boðið að koma og skoða bygginguna áður en Árnastofnun og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands flytja í húsið. Boðið var upp á leiðsögn um húsið, fræðimenn stofnunarinnar og kennarar í íslensku héldu fyrirlestra og rithöfundar fjölluðu um verk sín. Íslenskunemar kenndu ljóðaskrif og hljóðritun nafna og nemendur í íslensku sem öðru máli sýndu myndasögur sem þeir höfðu gert. Jakob Birgisson flutti gamanmál, Pétur Húni kvæðamaður kvað rímur á ýmsum stöðum í húsinu og Una Torfadóttir tónlistarkona lék fyrir gesti. Kór Neskirkju, undir stjórn Steingríms Þórhallssonar, söng fyrir gesti.

Dagskráin hófst hins vegar með því að Kvæðabarnafjelag Laufásborgar flutti rímur og vakti sérstaka athygli hversu einbeittir og duglegir kvæðamenn voru þrátt fyrir ungan aldur.

Áætlað er að um tólf til fjórtán þúsund manns hafi heimsótt Eddu þennan fagra sumardag.

Árnastofnun þakkar gestum fyrir komuna og góðar viðtökur.

Gleðilegt sumar!

 

Myndir: Sigurður Stefán Jónsson