Hvernig nota Norðurlandabúar orð eins og fuck og af hverju eru blótsyrði svo oft fengin að láni úr ensku? Hver er munurinn á what og ha í íslenskum samtölum og af hverju notum við svo oft orð úr ensku þegar við viljum sýna sterk viðbrögð eins og ánægju og vonbrigði?
Fimmtudaginn 17. ágúst 2023 var haldið opið málþing við Háskólann í Helsinki þar sem m.a. þessum spurningum var varpað fram. Málþingið var haldið á vegum PLIS-rannsóknarhópsins sem er vettvangur málfræðinga sem eru að rannsaka pragmatísk aðkomuorð í norrænum málum, þ.e. orð á borð við what, jess og fuck. Hópurinn hlaut styrk frá Nordforsk 2020–2023 til að skipuleggja þrjú málþing um þetta umfjöllunarefni og voru fyrri málþingin haldin í Reykjavík og Gautaborg. Aðalskipuleggjandi verkefnisins er Helga Hilmisdóttir, rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, en umsjón málþinganna á hverjum stað fyrir sig var í höndum meðumsækjenda.
Á dagskrá málþingsins að þessu sinni voru kynningar á helstu niðurstöðum rannsóknarhópsins og umræður um þær. Gestafyrirlesari var málfarsráðunauturinn Anna Maria Gustafsson frá Institutet för de inhemska språken í Helsinki. Í fyrirlestrinum fjallaði hún m.a. um sýn málfarsráðunauta á notkun ensku í fjölmiðlum og um ensku í textaskrifum finnskra framhaldsskólanema, en þar hafa orðið gífurlegar breytingar undanfarin tvö til þrjú ár. Í lok dags fóru svo fram pallborðsumræður um aðkomuorð frá ýmsum sjónarhornum. Þar tóku til máls sérfræðingar á ýmsum sviðum málvísindanna: Gisle Andersen frá Viðskiptaháskólanum í Bergen, Jan Lindström og Eeva Sippola frá Háskólanum í Helsinki og Eline Zenner frá Háskólanum í Leuven.
Vefsíðu verkefnisins má finna á pragmaticborrowing.info.