Skip to main content

Fréttir

Málþing Íslenska málfræðifélagsins: Íslensk málfræði á bók


Traustar handbækur eru mikilvæg forsenda fyrir öflugri kennslu í íslenskri málfræði og gerð kennsluefnis fyrir grunn- og framhaldsskóla og jafnframt nauðsynleg hjálpartæki við frekari rannsóknir. Fyrir skömmu kom út hjá Almenna bókafélaginu ritið Íslensk tunga 1-3 en það er þriggja binda yfirlitsrit um íslenska málfræði. Ritstjórar og aðalhöfundar eru Kristján Árnason, Guðrún Kvaran og Höskuldur Þráinsson. Útkoma þessa rits markar nokkur tímamót og gefur tilefni til að meta ástand og horfur á sviði yfirlitsrita um íslenska málfræði og ræða hver næstu skref ættu að vera.

Íslenska málfræðifélagið gengst þess vegna fyrir málþingi um yfirlitsrit um íslenska málfræði föstudaginn 23. nóvember næstkomandi kl. 14–17 í fyrirlestrasal safnaðarheimilis Neskirkju. Þar verður fjallað um yfirlitsritið Íslensk tunga 1-3 frá ýmsum hliðum og leitast við að leggja mat á hvernig til tókst við ritun þess og hvort settu marki var náð. Enn fremur verður rætt hvert stefna skal í ritun handbóka um íslenska málfræði hvers konar handbækur vantar helst.

Frummælendur verða Sæmundur Helgason, grunnskólakennari, Langholtsskóla; Ásdís Arnalds, Elínborg Ragnarsdóttir og Sólveig Einarsdóttir, framhaldsskólakennarar og kennslubókahöfundar, Kvennaskólanum í Reykjavík; Helgi Skúli Kjartansson, sagnfræðingur, Kennaraháskóla Íslands; Þórhallur Eyþórsson, málfræðingur, Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, og Anton Karl Ingason, nemi í íslensku við Háskóla Íslands.

Málþingið er öllum opið og hvetur félagið áhugamenn um íslenskt mál og málfræði til að fjölmenna og taka þátt í umræðum.