Líffærafræði leturs er sýning á verkum Sigríðar Rúnar Kristinsdóttur sem í sumar hlaut nemendaverðlaun frá Art Directors Club of Europe, fyrir bókina Líffærafræði Leturs. Fyrir sýninguna útfærði Sigríður Rún beinabyggingu fyrir alla stafi íslenska stafrófsins. Útfærslan er byggð á rannsóknum hennar á beinabyggingu dýra og manna. Hún notast aðallega við fuglabein, forneðlubein og fornfuglabein. Handskriftin er unnin upp úr einu elsta varðveitta handriti Íslendinga frá um 1250, Egils sögu Skallagrímssonar.
Sýningin verður opin til septemberloka í Spark Design Space, Klapparstíg 33.
Sigríður Rún segir um verkið og framsetninguna „Ímyndunaraflið er máttur mannsins til að skapa eitthvað nýtt. Sumt fólk hefur greiðari aðgang að heimi ímyndunaraflsins en aðrir en bókin sveigir tilurð bókstafa þannig að það myndast snertiflötur sem allir geta skoðað. Þegar mörkin eru orðin óljós reynir á hvort lesandinn höndli sköpunarverkið eða ekki. Þeir sem opna sig og leyfa sér að koma með mér inní þennan heim geta notið hans jafn vel og ég. Hinir sjá fallegar myndir og bók sem minnir þá á gamla tímann en skilja ekki endilega inntakið”
Kennarar og fagfólk sem er víðsýnt og reiðubúið að miðla eru oftar en ekki kveikjan að góðum verkefnum nemenda og ómetanlegir áhrifavaldar. Í þessu verkefni var það gestakennari við Listaháskóla Íslands, Lajos Major frá Ungverjalandi, sem kveikti neistann og Guðvarður Már Gunnlaugsson, handritafræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sem dýpkaði skilninginn og glæddi áhugann á að kafa dýpra.
Nánari upplýsingar eru á vefnum www.sparkdesignspace.com.