Skip to main content

Fréttir

Kynnisferð til Slóvakíu

Á dögunum fóru fulltrúar Árnastofnunar, Branislav Bédi og Helga Hilmisdóttir, í kynnisferð til Slóvakíu þar sem þau hittu íslenska læknanema í háskólabænum Martin. Tilgangur heimsóknarinnar var að skoða aðstæður íslenskra námsmanna á erlendri grundu, kortleggja aðlögun þeirra að slóvakísku samfélagi og athuga hvernig þeim gengur að eiga í samskiptum við heimamenn á slóvakísku og ensku.

Um tvö hundruð ungir Íslendingar stunda nám í læknisfræði og tengdum greinum við Jesseníus-læknadeildina í Martin. Deildin er á vegum Komeníus-háskóla í Bratislava og fer kennsla fram á ensku en einnig er nám í boði fyrir heimamenn á slóvakísku. Námið tekur sex ár og meðan á námi stendur verja læknanemar drjúgum tíma á háskólasjúkrahúsi borgarinnar þar sem þeir sinna sjúklingum. Til að undirbúa sig fyrir starfsnámið, sem m.a. felur í sér mikil samskipti við sjúklinga, leggja íslensku nemarnir stund á nám í slóvakísku. Skylda er að læra tungumálið í tvö ár, þ.e. fjórar kennslustundir á viku fyrstu tvö árin. Tungumálakennslan er krefjandi en námsgögn eru klæðskerasniðin fyrir læknanemanna og miða fyrst og fremst að því að undirbúa þá fyrir starfsnám.

Augljóst var að Árnastofnun er læknanemum í Martin að góðu kunn, ekki síst vegna þess að þeir eru dyggir notendur íðorðasafns lækna. Í orðasafninu, sem er hluti Íðorðabanka Árnastofnunar, má finna orð og hugtök úr læknisfræði ásamt skilgreiningum og þýðingum á ensku og latínu. Orðasafnið nýtist vel íslensku nemunum í Martin því að allt námið fer fram á ensku en þegar heim er komið þurfa nemar að geta talað við sjúklinga og samstarfsfólk á íslensku.

Í sömu ferð fóru fulltrúar Árnastofnunar í  heimsókn til Konstantín-háskólans í Nitra. Tilgangur þessarar heimsóknar var að ræða frekara samstarf á sviði annarsmálsrannsókna, NoTALaT – Novel Techniques and Approaches in Language Teaching, en það er samstarfsverkefni Árnastofnunar og Konstantín-háskóla. Verkefnið er stutt af uppbyggingarsjóði EES og er lögð áhersla á miðlun þekkingar á sviði annarsmálsfræða, menningar og notkun tækni í kennslu tungumála.