Hallgrímur J. Ámundason, íslenskufræðingur og örnefnafræðingur á nafnfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hefur farið af stað með söfnun örnefna og annarra heita í Vesturbæ Reykjavíkur. Á nafnfræðisviði stofnunarinnar er haldið utan um örnefnasafn Íslands. Í viðtalið í Morgunblaðinu 20. maí 2015 segir Hallgrímur að dæmigerð örnefnasöfnun hafi snúist um örnefni í sveitum landsins, eins og til dæmis fjallanöfn og bæjarnöfn. Hann hafi haft áhuga á örnefnum í þéttbýli og ekki síst óformlegum örnefnum sem verði til upp úr þurru.
Meðal annars hjá börnum í leik, sem búi sér til nöfn yfir marga hluti, hvort um sé að ræða leikvelli eða leynistaði, sem krakkar uppgötvi þegar þeir skottist um hverfið og haldi að enginn þekki. „Þessi nöfn eru þess eðlis að þau komast sjaldan á prent, eru bara til í barnahópnum og gleymast ef þau færast ekki á milli kynslóða,“ segir hann. Lesa má viðtalið við Hallgrím á vefnum: www.mbl.is/frettir/innlent/2015/05/20/kokakolarolo_og_logguhus
Einnig má fylgjast með á Facebook þar sem upphaflega könnunin fór fram: www.facebook.com/groups/650798588311970