Skip to main content

Fréttir

Klausturmenning á Íslandi og Norðurlöndum

Árnagarður.

 

Miðaldastofa gengst í vetur fyrir röð fyrirlestra um klausturmenningu á Íslandi og Norðurlöndum á miðöldum. Á Íslandi störfuðu níu klaustur fyrir siðaskipti (og stofnað var til nokkurra til viðbótar sem störfuðu skamma hríð), bæði af reglu Benedikts og Ágústínusar. Tvö þeirra voru nunnuklaustur en hin munkaklaustur. Þessar stofnanir voru miðstöðvar trúariðkunar en gegndu jafnframt ýmsum öðrum hlutverkum í samfélaginu, sem fræðasetur, miðstöðvar bókagerðar og sjúkrastofnanir, svo að eitthvað sé nefnt. Þá voru klaustrin gátt ýmissa erlendra strauma inn í íslenskt samfélag, enda voru þau hluti af stærri klausturhreyfingu og áttu sér fyrirmyndir erlendis.

Fyrirlestrarnir fara fram í stofu 423 í Árnagarði í Háskóla Íslands og hefjast kl. 16.30 nema annað sé sérstaklega tekið fram. Fyrirlestrarnir verða að jafnaði á bilinu 35-40 mínútur og á eftir gefst kostur á umræðum.

Fyrsti fyrirlesturinn í röðinni verður haldinn fimmtudaginn 3. október kl. 16.30 í stofu 423 í Árnagarði en þá fjallar Albína Hulda Pálsdóttir dýrabeinafornleifafræðingur um vitnisburð dýrabeina um lífið í íslenskum klaustrum.

Dagskrá fyrirlestraraðarinnar er að finna á vef Miðaldastofu.

Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.