Skip to main content

Fréttir

Katrínar saga er komin út

Út er komin Katrínar saga.

Í ritinu birtast þrír textar sem allir fjalla um heilaga Katrínu. Sagan um hana varð til í Austurlöndum á sjöttu eða sjöundu öld og upphaflega skrifuð á grísku. Síðan var hún þýdd á latínu og ýmsar evrópskar þjóðtungur, þar á meðal á íslensku. Íslenska þýðingin er varðveitt í heilu lagi í handriti frá miðri 15. öld og í brotum frá miðri 14. öld til 1500. Elsti varðveitti textinn, sem vantar upphafið, er prentaður hér á vinstri síðu í opnu og hægra megin heili textinn með lesbrigðum úr öðrum handritum fyrir neðan. Þar undir er prentaður latneskur texti sem útgefandi hefur sýnt fram á að komi næst íslensku þýðingunni. Í handriti frá því um 1500 er frásögn um flutning helgra dóma Katrínar og jarteiknir hennar. Þessi texti er að mestu leyti þýddur úr latínu og hér eru textarnir gefnir út saman á síðu á eftir Katrínar sögu. Í lok bókarinnar er prentað les heilagrar Katrínar á latínu úr handritsbrotinu Þjms. 243. Þetta er texti sem ætlaður var til upplestrar á messudegi heilagrar Katrínar. Katrínarlesið sem birtist hér fyrsta sinni á prenti er mikil stytting á upprunalega latneska textanum sem til samanburðar er prentaður neðanmáls.

Útgáfuna önnuðust Bjarni Ólafsson, fyrrverandi íslenskukennari við Menntaskólann við Hamrahlíð og Þorbjörg Helgadóttir, ritstjóri við Ordborg over det norrøne prosasprog í Kaupmannahöfn.

Hér má kaupa bókina.