Skip to main content

Fréttir

Íslenskukennsla við BFSU í Peking

Nemendur við Beijing Foreign Studies University vorið 2013 ásamt rektor háskólans og Jónínu Leósdóttur rithöfundi.

 

Íslenskukennsla hófst við Beijing Foreign Studies University haustið 2008. Þá var tekinn inn hópur af nemum sem nú hafa lokið B.A. prófi. Í ráði er að taka inn annan hóp B.A. nema í haust en á þessu skólaári hefur íslenska verið kennd sem valfag. Leitað er eftir kennara til að taka að sér kennsluna á næsta skólaári.

Gert er ráð fyrir að tólf kínverskir úrvalsnemendur leggi stund á íslensku sem aðalgrein við BFSU næstu fjögur ár. Auk íslensku læra þau ensku, sögu og alþjóðatengsl.  Mikil samkeppni er um að komast inn í skóla þennan sem hefur mjög gott orðspor í Kína.

Sænska hefur lengi verið kennd við skólann og fyrir nokkrum árum var hafin kennsla í dönsku, finnsku og norsku, auk íslensku. Talsvert íslenskt bókasafn er við skólann.

Vinnuskylda íslenskukennarans eru 10-14 tímar í viku, þar með taldar kennslustundir og viðtalstímar. Auk þess þarf kennarinn að vera kínverskum samstarfsmönnum sínum innan handar varðandi upplýsingar um íslensk málefni.

Krafist er M.A. prófs eða sambærilegs prófs í íslensku eða málvísindum. Mjög góðrar enskukunnáttu er krafist.

Ráðið er til eins kennsluárs í senn, í 10 og 1/2 mánuð frá 1. september til 15 júlí. Möguleiki er á endurráðningu í allt að fjögur ár.

Mörg Evrópuríki hafa nú sendikennara við skólann og leggur skólinn þeim til íbúð (stærð fer eftir fjölskylduhögum) með húsgögnum og sjónvarpi og laun sem nema 4.300 til 5.600 RMB á mánuði.  (Gengi RMB er um 19,00 krónur). Sú upphæð er  talin duga þeim sem eru reiðubúnir að semja sig að kínverskum lífsstíl. Að auki mun BFSU greiða sjúkratryggingu og flug milli Keflavíkur og Peking einu sinni á ári. Íslensk stjórnvöld hafa að auki ákveðið að styrkja kennsluna.

Frekari upplýsingar um stöðuna er unnt að fá á alþjóðasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í síma 5626050.

Umsóknir, sem greini frá námi og störfum umsækjenda, ásamt skýrslu um ritsmíðar og rannsóknir, skulu sendar til Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, stofu Sigurðar Nordals, pósthólf 1220, 121 Reykjavík, fyrir 15. maí 2013.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum