Skip to main content

Fréttir

Íslenskan er ekki lúxusmál

Guðrún Nordal. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir.

 

Á síðustu árum hefur verið skorið gríðarlega niður í öllum ríkisrekstri og ekki verður gengið lengra án þess að skýr stefna sé höfð að leiðarljósi í öllum málaflokkum. Fréttir af stöðunni á einstökum deildum á Landspítala skekja okkur öll. Við þurfum að taka höndum saman til að tryggja öryggi sjúklinga og hafa hugrekki til að taka erfiðar ákvarðanir sem fylgja endurskipulagningu og nýrri framtíðarsýn.

En um leið verðum við að vanda okkur í umræðunni og stefna ekki einu sviði samfélagsins á móti öðru. Við megum aldrei gleyma heildarmyndinni. Líf okkar í þessu landi er reist á fjölbreyttum grunni. Börnin okkar munu ekki kjósa að búa hér nema okkur takist einmitt nú að búa til lífvænlegt samfélag um allt land með öruggu heilbrigðiskerfi, sveigjanlegu menntakerfi, kraftmiklum vísindum og nýsköpun, fjölbreyttu atvinnulífi og öflugu menningarlífi. En auðvitað er höfuðverkur að forgangsraða. Mörg svið samfélagsins nutu ekki hinna alkunnu góðærisára og sú stofnun sem ég stýri þurfti að aðlaga sig að skertum fjárveitingum á þeim tíma. Við hrun kom því óumflýjanlegur niðurskurður fyrst og fremst niður á starfsmannahaldi. Starfsmönnum á Árnastofnun hefur fækkað um fjórðung á síðustu árum, svo að tómt mál er að tala um að stofnunin geti sinnt lögbundnum skyldum sínum.

Ég býst við að fæstir geri sér grein fyrir þeim margslungnu og þjóðhagslega mikilvægu verkefnum sem unnin eru á Árnastofnun. Stofnunin varðveitir ómetanleg handrit, m.a. handritasafn Árna Magnússonar sem þjóðin lagði ríka áherslu á að fá heim frá Danmörku eftir stofnun lýðveldisins. Það mætti líkja handritadeilunni við landhelgisdeiluna, því að í báðum tilvikum var tekist á um yfirráð auðlinda okkar. Sá árangur sem vannst var alls ekki sjálfsagður og lagði þjóðinni líka ríkar skyldur á herðar. Fyrir fimm árum sáu 13 starfsmenn á Árnastofnun um varðveislu, rannsóknir, útgáfu, kynningu og miðlun þessa arfs okkar. Í næsta mánuði verða aðeins sex eftir og munu ekki geta sinnt þeim sívaxandi fjölda sem vill nýta sér handritin í miðlun, nýsköpun, skapandi greinum eða rannsóknum.

Árnastofnun heldur utan um dýrmætt þjóðfræði- og örnefnasafn. Við höfum það lögbundna hlutverk að sannprófa örnefni á kortum Landmælinga Íslands og sinna margskonar þjónustu við almenning. Orðin geyma nefnilega dýrmætar upplýsingar um dulin landgæði, eins og yl í jörðu. Fyrir fjórum árum voru þrír starfsmenn á þeirri vakt, nú aðeins einn.

Stofnunin vinnur grundvallarrannsóknir í máltækni, sem Orðabók Háskóla Íslands var frumkvöðull að. Máltæknin er forsenda þess að íslenskan lifi af í þeirri tæknibyltingu sem fer undrahratt um heiminn. Það er í senn mannréttindamál, öryggismál og velferðarmál að íslenska verði notuð í talgervlum; að við getum talað okkar eigið mál við tölvur sem munu taka yfir í þjónustuverum og tækjum af öllu tagi á næstu árum. Beygingarlýsing íslensks nútímamáls er nú notuð í leitarkerfum ja.is og fleiri aðila og íðorðabankinn sem vex og dafnar í miklu samstarfi við fólk um allt land fær margfaldan virðisauka í tölvuheimum. Allt þetta starf er nánast unnið af hugsjón með því að skrapa saman aukakrónur, en stjórnvöld þurfa nú að gera upp við sig hvort við ætlum að kosta því sem til þarf til að skapa íslenskunni rými í tölvuheimum.

Við vinnum að gerð rafrænna orðabóka og höfum birt í opnu aðgengi íslensk-danska, íslensk-norska og íslensk-sænska orðabók. Íslensk-íslensk rafræna orðabók gætum við nú fullunnið með sameiginlegu átaki okkar og íslenskra útgefenda, og yrði hún stórkostlegt tól í tölvum og símum. Stafsetningarorðabókin gæti einnig tengst tölvum beint og skólafólk nyti auðvitað ekki síst góðs af. Við vinnum ekkert af þessu ein, heldur í miklu samstarfi við stúdenta, kollega í Háskóla Íslands, aðra fræðimenn og ekki síst erlenda vísindamenn sem fylla svo stofnunina að við komum þeim varla fyrir.

Síðast en ekki síst heldur stofnunin utan um íslenskukennslu erlendis og ætti það starf að vera sett á oddinn í útflutningsstarfi okkar. Miðaldabókmenntirnar draga nýtt og framúrskarandi fólk í rannsóknir á íslenskum bókmenntum og tungu, og þetta fólk verður okkar traustustu sendiherrar um allan heim. Íslenska, forn og ný, er nú kennd við hvorki meira né minna en um 100 háskóla víða um veröld. Margir útlendingar koma á sumarnámskeið stofnunarinnar og sumir ílengjast hér við Háskóla Íslands og læra íslensku til fullnustu. Þannig verða til þeir þýðendur sem flytja hróður íslenskra bókmennta um allan heim og er ekki sjálfsagt að svo lítið málsvæði eigi svo öfluga sveit þýðenda. Nútímabókmenntir eru þýddar á fjölda tungumála; fyrrum sumarstarfsmaður Málræktarsviðs, sem tók fyrstu íslensku skrefin á sumarnámskeiði og lærði svo íslensku við Háskólann, á t.d. heiðurinn af þýðingu á verðlaunabók Arnaldar Indriðasonar, Skuggasundi. Ég gæti haldið endalaust áfram.

Stofnunin varð til í núverandi mynd með samruna fimm stofnana fyrir sjö árum sem eru dreifðar um bæinn. Þá var strax efnt til byggingar húss fyrir sameinaða og stóreflda starfsemi, öruggan aðbúnað handritanna og nýtískulegar sýningar fyrir ört vaxandi ferðamannafjölda og miklu opnara aðgengi almennings að öllum gögnum. Sem betur var þá tekin sú ákvörðun að öll kennsla og rannsóknir í íslensku við Háskóla Íslands yrði einnig flutt í húsið. Nýtt Hús íslenskra fræða verður því sannkölluð aflstöð tungunnar og bókmenntanna, þar sem hægt verður að sameina krafta til að leysa þau flóknu verkefni sem við blasa.

Íslenskan er ekki lúxusmál; hún er okkar mál. Engir aðrir munu rækta hana betur og efla í tölvuheimum en við sjálf, og ég fullyrði að við munum fá það allt margsinnis borgað til baka. Handritin og miðaldabókmenntir okkar eiga ekki að rykfalla í geymslum heldur að vera í aðalhlutverki í bókmenntaborginni. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er lögð sérstök áhersla á þessi mikilvægu atriði og við hljótum að taka þau orð alvarlega. Við verðum að horfa til framtíðar. Framkvæmdir voru loks hafnar við Hús íslenskra fræða á Melunum í vor. Sú sameiginlega framkvæmd Háskóla Íslands og stjórnvalda er ekkert gæluverkefni heldur einfaldlega ein forsendan af mörgum í þeirri nauðsyn að Íslendingar takist á við áskoranir nýrrar aldar af fullum krafti.

Guðrún Nordal
forstöðumaður Árnastofnunar

(Grein birt í Morgunblaðinu 17. september 2013)