Skip to main content

Fréttir

Íslensk tunga á stafrænni öld

Bókahillur. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir.

 

Á síðasta ári var gerð viðamikil könnun á stöðu 30 Evróputungumála, þar á meðal íslensku, á vegum Evrópuverkefnisins META-NET, en Máltæknisetur samstarfsvettvangur HÍ, HR og Árnastofnunar, á aðild að því gegnum undirverkefnið META-NORD. Þetta er langsamlega yfirgripsmesta könnun af þessu tagi sem gerð hefur verið um alla Evrópu. Nú hafa verið samdar skýrslur um niðurstöður könnunarinnar, ein fyrir hvert mál - alls 30 skýrslur. Skýrslurnar eru allar tvímála, á því máli sem um er fjallað og ensku. Í þeim er einkennum og sérkennum málanna lýst stuttlega og gerð grein fyrir málsamfélaginu og stöðu málsins innan þess - í stjórnsýslunni, viðskiptalífinu, skólakerfinu og víðar. Einnig er fjallað um málrækt og stöðu málsins í alþjóðlegu samhengi.
  
Megináherslan er þó á máltækni, þ.e. tæknilegan stuðning við tungumálið - leiðréttingarforrit (fyrir stafsetningu og málfar), þýðingarforrit, búnað til talsamskipta (talgervla og talgreina) o.fl. Niðurstaða skýrslnanna er sú að um 2/3 hlutar málanna sem um er fjallað séu í hættu vegna þess að þau nái ekki að fylgja hraðri þróun upplýsinga- og tölvutækninnar og verði því ekki nothæf á mikilvægum sviðum þjóðlífsins í framtíðinni, ef svo fer sem horfir. Í skýrslunum er lögð áhersla á nauðsyn þess að vekja stjórnvöld og almenning til vitundar um þessa hættu og benda á mikilvægi máltækni og möguleika hennar til að auðvelda samskipti milli þjóða, og milli manns og tölvu.
  
Skýrslurnar hafa verið gefnar út á prenti hjá Springer-forlaginu, en eru einnig allar á netinu - www.meta-net.eu/whitepapers. Bein slóð á íslensku skýrsluna er www.meta-net.eu/whitepapers/volumes/icelandic. Í skýrslunni kemur fram að íslenska er næstverst stödd af málunum 30 á sviði máltækni – fyrir aðeins eitt málanna, maltnesku, er til minna af máltæknibúnaði en fyrir íslensku. Reyndar hefur staða íslensku batnað aðeins á síðustu vikum með tilkomu nýs íslensks talgreinis og talgervils sem ekki voru tilbúnir þegar gengið var frá skýrslunni í vor, en betur má ef duga skal. Þar er í báðum tilvikum um að ræða þróunarstarf unnið erlendis sem skilar sér ekki beint inn í íslenskt rannsóknarumhverfi.
  
Það er ljóst að gífurleg þróun verður á þessu sviði á næstu árum, og stórstígar framfarir í samskiptum, bæði milli fólks sem talar mismunandi tungumál, og milli manns og tölvu. Ef íslensk fyrirtæki og rannsóknarstofnanir taka ekki virkan þátt í þeirri þróun er næsta víst að íslenska dregst aftur úr og verður á fáum áratugum heimilismál sem ekki nýtist á mikilvægum sviðum í daglegu lífi fólks. Tungumáls sem svo er ástatt um bíður ekkert annað en hægfara dauði. Það er því mjög mikilvægt að ýta undir rannsóknar- og þróunarstarf í máltækni. Þótt íslenski markaðurinn fyrir máltæknibúnað sé vissulega smár og hagnaðarvon fyrirtækja ekki mikil þar snýst þróunarstarf á þessu sviði oft um aðferðir sem eru óháðar tungumálum og hafa því almennt vísindalegt gildi.

 

Íslensk tunga á stafrænni öld.