Skip to main content

Fréttir

Íslensk handritasöfn taka þátt í evrópsku samvinnuverkefni


Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum taka þátt í evrópsku samvinnuverkefni sem hefur fengið yfirskriftina ENRICH, sem stendur fyrir European Networking Resources and Information concerning Cultural Heritage, en nefnist á íslensku: Evrópskar net- og upplýsingaveitur um menningararfleifð. Tilgangur verkefnisins er að veita aðgang frá einum stað að stafrænum myndum og lýsingum á handritum í evrópskum handrita-, skjala og minjasöfnum. Verkefnið mun standa yfir í tvö ár og því lýkur í nóvember 2009.

Nánari upplýsingar:

ENRICH
European Networking Resources and Information concerning Cultural Heritage
Evrópskar net- og upplýsingaveitur um menningararfleifð
(Desember 2007 – nóvember 2009)

Þann 3. desember s.l. var hleypt af stokkunum í Prag samstarfsverkefninu ENRICH sem styrkt er af eContentPlus áætlun Evrópusambandsins. Heiti verkefnisins ENRICH er skammstöfun fyrir European Networking Resources and Information concerning Cultural Heritage, Evrópskar net- og upplýs ingaveitur um menningararfleifð. Markmið þess er að opna greiðan aðgang að stafrænum myndum af fornum heimildum sem varðveitt eru í ýmsum evrópskum menningarstofnunum og skapa með því móti sameiginlegt sýndarumhverfi, einkum til rannsókna á handritum en einnig vögguprenti, fágætum gömlum prentuðum bókum og öðrum sögulegum skjölum. Verkefnið byggir á þeirri reynslu sem fengist hefur af verkefninu Manuscriptorium Digital Library en þar eru samtengd gögn frá 46 söfnum í Tékklandi og fleiri löndum.

ENRICH verkefnið mun ná til því sem næst 85% stafrænna mynda sem fram til þessa hafa verið teknar af handritum í evrópskum þjóðbókasöfnum. Á verktímanum mun bætast við umtalsverður fjöldi gagna frá háskólabókasöfnum og öðrum stofnunum. Samstarfið mun opna aðgang að rösklega fimm milljónum stafrænna blaðsíðna.

Manuscriptorium er árangur af fimmtán ára samvinnu og þróunarstarfi tveggja virtra tékkneskra stofnana: AiP Beroun hf. og Þjóðbókasafns Tékklands. Það er stærsta safn stafrænna handritamynda í Evrópu og veitir aðgang að meira en einni milljón blaðsíðna; það ræður yfir öruggum stafrænum gagnageymslum, nýtur ríkisframlaga til stafrænnar myndatöku og viðmót þess er bæði á tékknesku og ensku. Um 50% notenda Manuscriptorium eru erlendir og sérstök hliðargrein þess þjónar kennslu og námi í framhaldsskólum. Manuscriptorium er sprottið upp af Memory of the World verkefni UNESCO og hlaut Þjóðbókasafn Tékklands af þeim sökum Jikji heimsviðurkenningu UNESCO árið 2005. Sú þekking og verkkunnátta við framkvæmd stafrænna verkefna sem orðið hefur til við uppbyggingu Manuscriptorium hefur verið kynnt og samnýtt með mörgum þjóðum heims.

Manuscriptorium byggir á traustu xml-skráningarformi og er kjarni þess hinn evrópski MASTER staðall fyrir handritaskráningu. Í verkbyrjun er aðgangur að gögnum sem vistuð eru í gagnageymslum AiP Beroun í Tékklandi en ENRICH verkefnið mun opna aðgang að enn frekari gögnum í erlendum stafrænum söfnum. Lýsigögn verða í miðlægum gagnagrunni og verða sótt frá einstökum söfnum með svokölluðum OAI safnara; þau munu geyma tengingar við stafrænar myndir sem vistaðar eru í gagnagrunnum hjá þeim stofnunum sem varðveita frumgögnin sjálf. Komið verður upp nauðsynlegum samskiptaleiðum og þær sérsniðnar að þörfum hvers þátttakanda í verkefninu. Þróaðar verða sérhæfðar lausnir til gera þeim þátttakendum, sem ekki hafa yfir að ráða eigin vefviðmóti, kleift að opna aðgang að sínum gögnum.

Markhópar ENRICH verkefnisins eru þeir sem eiga eða varðveita gögn, bóka-, minja- og skjalasöfn, vísindamenn og háskólanemar, stjórnsýsla og almennir notendur. Verkefnið mun gera þeim kleift að leita uppi og nálgast heimildir sem annars væru nánast óaðgengilegar. Auk stafrænna mynda verður unnt að bjóða aðgang að tölvutækum textum heimilda, ýmsum hjálpargögnum, hljóðskrám og myndum af stórum sögulegum kortum. Náin samvinna verður á milli ENRICH-verkefnisins og Evrópubókasafnsins (TEL – The European Library), og með þeim hætti verður verkefnið hluti af Stafræna evrópska bókasafninu.

Hluti ENRICH-verkefnisins er að virkja notendur. Þeir munu fá til afnota tæki til að safna saman, eftir eigin geðþótta, stafrænum skjölum og nýta sér gögnin til rannsókna. Hægt verður að nota nokkurn fjölda tungumála við leit innan Manuscriptorium.

Þátttakendur í ENRICH samstarfsverkefninu eru 18 og að auki styður það fjöldi annarra stofnana sem margar hafa yfir að ráða mikilvægum gagnasöfnum.

Þjóðbókasafn Tékklands leiðir verkefnið ásamt tveimur tékkneskum þátttakendum: AiP Beroun og Crossczech Prague hf. Þjóðbókasafnið og AiP Beroun leiða einnig einstaka verkþætti verkefnisins ásamt Tölvuþjónustu Oxford háskóla; Miðstöð rannsókna í boðskiptum og fjölmiðlun við Flórensháskóla á Ítalíu; Stærðfræði og upplýsinga­fræðistofnuninni í Vilnius, Lettlandi; SYSTRAN Paris í Frakklandi, og Þjóðbókasafni Spánar.

Aðrir þátttakendur sem leggja til tækni og gögn eru: Árnasafn við Kaupmanna­hafnarháskóla; Miðstöð Þjóðbókasafnsins í Flórens á Ítalíu; Þjóðbókasafnið í Vilnius í Lettlandi; Háskólabókasafnið í Wroc³aw, Póllandi; Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík; Tölvunarfræðistofnun mannvísinda við Kölnarháskóla í Þýskalandi; Biskupsskjalasafnið í St. Pölten (Monasterium-verkefnið), Austurríki; Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Reykjavík; Tækni- og hagfræðiháskólinn í Búdapest, Ungverjalandi; og Reikni- og netsamskiptastofnun í Poznañ, Póllandi.

Þá hafa eftirtaldir aðilar lýst yfir áhuga sínum til samtarfs við verkefnið: Þjóðbókasöfnin í Ungverjalandi, Kazakhstan, Moldavíu, Póllandi, Rúmeníu, Serbíu, Svíþjóð og Tyrklandi; einnig háskólabókasöfnin í Bratislava, Búkarest og Heidelberg. Listinn yfir samstarfsaðila mun lengjast eftir því sem líður á verkefnið.

Nánari upplýsingar veita: Örn Hrafnkelsson, forstöðumaður handritadeildar Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns
– netfang: ornhra@bok.hi.is. S: 525 5677
Sigurgeir Steingrímsson, stofustjóri handritasviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
– netfang: sigurgst@hi.is. S: 525 4017