Skip to main content

Fréttir

Íðorðaskrá efnafræðinnar – nýtt orðasafn í Íðorðabankanum

Íðorðasafn í efnafræði er núna komið inn í Íðorðabankann. Það er gleðiefni að fá þessa viðbót við Íðorðabankann þar sem erfitt hefur verið að finna íðorð á þessu sviði. Íðorðanefnd Efnafræðifélagsins tók orðasafnið saman og núna eru í því alls 593 hugtök.

Þrír karlar í peysum og gallabuxum stilla sér glaðir upp fyrir mynd.
Sigurður Guðni Gunnarsson, Egill Antonsson og Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson. Á myndina vantar Katrínu Lilju Sigurðardóttur.
SSJ

Síðastliðið haust var íðorðanefnd Efnafræðifélagsins formlega stofnuð. Sigurður Guðni Gunnarsson hefur verið í fararbroddi í starfi nefndarinnar en með honum eru Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, Egill Antonsson og Katrín Lilja Sigurðardóttir.

Forvígismaður að orðasafninu er Sigurður Guðni Gunnarsson efnafræðingur. Hér lýsir hann því hvað varð til þess að þetta orðasafn var tekið saman.

„Strax í menntaskóla rak ég mig á það að það var erfitt að afla sér upplýsinga um efnafræði á íslensku. Það var mjög lítið aðgengi að íslenskum þýðingum á hugtökum sem eru notuð í efnafræði svo að það gat oft reynst flókið að afla sér upplýsinga á netinu. Afleiðing þess að erfitt hafi verið að nálgast þessar upplýsingar er að kennarar víðs vegar um landið höfðu ekkert orðasafn og fóru að þýða hugtök upp á eigin spýtur. Í sumum tilvikum eru því margar þýðingar til á sama hugtakinu og það getur valdið ruglingi.

Nokkrum árum seinna ákvað ég að byrja að skrifa greinar tengdar efnafræði á Wikipedia. Mér finnst mjög mikilvægt að fólk geti aflað sér upplýsinga um vísindi á sínu eigin móðurmáli og mér fannst aðgengið að upplýsingum á íslensku alls ekki nógu gott. Þegar ég var byrjaður að skrifa á Wikipedia rak ég mig ítrekað á að mig vantaði íslenska þýðingu á efnafræðihugtökum og gat hvergi flett þeim upp. Ég nefndi því við leiðbeinanda minn í meistaraverkefni mínu, Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, þá hugmynd að stofna íðorðanefnd í efnafræði. Íðorðanefndin var svo stofnuð haust 2023 en í henni sitja ég (Sigurður Guðni Gunnarsson), Benjamín Ragnar, Egill Antonsson og Katrín Lilja Sigurðardóttir.

Nú er loksins komið inn orðasafn í efnafræði í Íðorðabankann. Núna eru í því 593 hugtök en safnið á eftir að stækka. Enn sem komið er eru þetta að mestu leyti grunnhugtök í efnafræði en við í orðanefndinni eigum eftir að skrá hugtök sem eiga sérstaklega við ákveðnar undirgreinar efnafræðinnar.“