Skip to main content

Fréttir

Icelandic Online fyrir lengra komna og innflytjendur

Byrjendanámskeiðið Icelandic Online I, sem er sjálfstýrt vefnámskeið í íslensku sem seinna máli, var formlega tekið í notkun föstudaginn 27. ágúst 2004. Síðar var bætt við framhaldsnámskeiðinu Icelandic Online II. Icelandic Online er samfellt námskeið sem byggist á myndrænu og gagnvirku námsefni. Hvert námskeið samsvarar 45 – 90 klukkustunda námi. Icelandic Online er öllum opið án endurgjalds.

Icelandic Online er nú notað í sjálfsnámi víða um lönd og í fjarnámi sem Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands býður upp á. Það er einnig notað sem ítarefni í kennslu íslensku sem seinna máls, sem fornám fyrir sumarnámskeið og fyrir B.A. nám við Háskóla Íslands. Um 16.000 notendur hafa skráð sig á námskeiðið frá byrjun og heimsóknir eru um 600 á degi hverjum, þar af er um þriðjungur á Íslandi.

Nú vinna Hugvísindastofnun Háskóla Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum – í samstarfi við íslenskulektora við erlenda háskóla, þrjár erlendar stofnanir, Tungumálamiðstöðina og fjölmenningarsetur hér á landi – annars vegar að því að bæta tveimur framhaldsnámskeiðum við Icelandic Online, þ.e. Icelandic Online III og Icelandic Online IV, og að laga Icelandic Online I að þörfum innflytjenda.

Háskólinn í Wisconsin í Bandaríkjunum veitir aðgang að rafrænni íslensk-enskri orðabók. Námskeiðinu fylgir málfræðigrunnur sem er lagaður að námsefninu og þörfum nemenda.

Icelandic Online hefur í áranna rás verið styrkt af Lingua-áætlun Evrópusambandsins, Nordplus, Háskóla Íslands, Rannís og menntamálaráðuneytinu. Nordplus sprog hefur veitt styrki að upphæð 130.000 evrur til að þróa Icelandic Online III og IV og Icelandic Online fyrir innflytjendur og gert það kleift að hrinda verkefnunum af stað.

Prófessor Birna Arnbjörnsdóttir er formaður verkefnisstjórnar.