Skip to main content

Fréttir

Icelandic Online fékk viðurkenningu og fer í útrás

Birna Arnbjörnsdóttir, Úlfar Bragason, Lára Aðalsteinsdóttir, Kristín Viðarsdóttir, Illugi Gunnarsson og Steinunn Sigurðardóttir. Mynd fengin af vefnum mrn.is.

 

Vefnámskeiðið Icelandic Online, sem á rætur í starfi Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hlaut sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu fyrir stuðning við íslenska tungu. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra veitti viðurkenninguna í Iðnó 15. nóvember síðastliðinn.

Í greinargerð ráðgjafanefndar segir um Icelandic Online: „Námskeiðið Icelandic Online er vefnámskeið í íslensku sem erlendu máli. Það var tekið í notkun fyrir tíu árum og hefur bæst við námsefnið jafnt og þétt allar götur síðan. Icelandic Online er öllum opið og aðgangur er ókeypis. Námskeiðið er einkum ætlað erlendum háskólanemum en einnig öðrum sem áhuga hafa á íslensku máli og menningu, bæði  erlendis og hér á landi. Að verkefninu standa Hugvísindastofnun, Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og  Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Námskeiðið hefur stuðlað að aukinni íslenskukunnáttu svo um munar og hefur gagnast tugþúsundum notenda víða um heim.“

Icelandic Online-verkefnið hefur nýverið fært út kvíarnar í samstarfi við Fróðskaparsetrið í Færeyjum um þróun Faroese Online en námskeiðið er ætlað innflytjendum í Færeyjum. Fyrirmynd færeyska námskeiðsins er Icelandic Online - Bjargir sem var opnað árið 2010. Bjargir eru eitt af sex námskeiðum undir hatti Icelandic Online-verkefnisins.

Fyrsta Icelandic Online-námskeiðið var gefið út árið 2004 en það nýjasta, Icelandic Online 5, var opnað á síðasta ári. Námskeiðin eru gagnvirk og byggð á nýjustu rannsóknum í kennslufræði annarra/erlendra tungumála á netinu auk áralangrar reynslu af kennslu íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands. Bjargir eru ætlaðar innflytjendum sem búa og starfa á Íslandi. Efni námskeiðsins er hagnýtt og tekur til daglegs lífs á Íslandi með þarfir innflytjenda í huga. Innihaldið er umfangsmikið og skiptist í sex samfellda kafla með um 260 fjölbreyttum æfingum.

Tölvunarfræðinemar við Háskóla Íslands, Daníel Páll Jóhannsson og Össur Ingi Jónsson, ásamt Patrick Thomas tölvunarfræðingi vinna nú að þróun „apps“ til að unnt sé að bjóða Bjargir á nýjustu fartækjum, s.s. snjallsímum og spjaldtölvum. Færeyingar njóta góðs af þessari þróunarvinnu við gerð Faroese Online og nýta tæknihluta Bjarga, auk þess að þýða efnið og staðfæra fyrir sinn markhóp.

Samstarfsverkefnið er styrkt af Nordplus Voksen. Í starfshópnum eru fyrir hönd Háskóla Íslands: Birna Arnbjörnsdóttir prófessor, Kolbrún Friðriksdóttir aðjúnkt, Patrick Thomas tölvunarfræðingur og Úlfar Bragason rannsóknarprófessor. Frá Fróðskaparsetri í Færeyjum: Hjalmar P. Petersen lektor, John Mikkelsen, tölvunarfræðingur og nemi, og Malan Marnersdóttir, prófessor og sviðsforseti. Frá Helsinki-háskóla: Helga Hilmisdóttir lektor.