Í tilefni af hálfrar aldar afmæli Háskólasjóðs H/f Eimskipafélags Íslands hafa sjóðurinn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gert með sér samstarfssamning um að sjóðurinn styrki verkefni á vegum Árnastofnunar sem felst í því að safna upplýsingum um handrit í Vesturheimi og skrá á stafrænt form. Styrkurinn er til þriggja ára og nemur 3,7 milljónum króna á ári eða alls 11,1 milljónir króna.
Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands var stofnaður 1964 og var stofnfé sjóðsins hlutabréfaeign Vestur Íslendinga í Eimskipafélaginu. Rekstur og ávöxtun sjóðsins er á ábyrgð Landsbankans og hefur hann skilað góðri afkomu að undanförnu. Þess vegna er mögulegt að styðja verkefni Árnastofnunar með svo myndarlegum hætti. Landsbankinn hf. og Eimskip munu að auki styrkja verkefnið um eina milljón króna, hvort fyrirtæki.
Verkefnið nefnist „Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi“ og lýtur stjórn forstöðumanns Árnastofnunar. Markmiðið er að skrá handrit í opinberum söfnum og einkaeigu í Kanada og Bandaríkjunum í gagnagrunn á vefsíðunni handrit.is, en Katelin Parsons doktorsnemi mun vinna að verkefninu á vegum stofnunarinnar. Hún hefur unnið að rannsóknum á handritaeign vesturfara í fleiri ár og athuganir hennar benda sterklega til þess að þúsundir handrita hafi verið fluttar vestur um haf á árunum 1870–1914 og að þau séu enn á víð og dreif meðal annarra óskráðra menningarverðmæta.
Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, og Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans og formaður stjórnar Háskólasjóðsins, skrifuðu undir samninginn. Viðstaddir voru stjórnarmenn Árnastofnunar og starfsmenn sem koma að verkefninu, rektor Háskóla Íslands, fulltrúar Landsbankans og að auki fulltrúar úr heiðursráði Þjóðræknifélagsins en félagið hefur beitt sér ötullega fyrir því að þetta verkefni getið orðið að veruleika.