Skip to main content

Fréttir

Í fót­spor Árna Magnús­son­ar í Vest­ur­heimi

Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hafa gert með sér samstarfssamning. Myndin er tekin við það tilefni.

 

Í til­efni af hálfr­ar ald­ar af­mæli Há­skóla­sjóðs H/​f Eim­skipa­fé­lags Íslands hafa sjóður­inn og Stofn­un Árna Magnús­son­ar í íslenskum fræðum gert með sér sam­starfs­samn­ing um að sjóður­inn styrki verk­efni á veg­um Árna­stofn­un­ar sem felst í því að safna upp­lýs­ing­um um hand­rit í Vest­ur­heimi og skrá á sta­f­rænt form. Styrk­ur­inn er til þriggja ára og nem­ur 3,7 millj­ón­um króna á ári eða alls 11,1 millj­ón­ir króna.

Há­skóla­sjóður H/​f Eim­skipa­fé­lags Íslands var stofnaður 1964 og var stofn­fé sjóðsins hluta­bréfa­eign Vest­ur Íslend­inga í Eim­skipa­fé­lag­inu. Rekst­ur og ávöxt­un sjóðsins er á ábyrgð Lands­bank­ans og hef­ur hann skilað góðri af­komu að und­an­förnu. Þess vegna er mögu­legt að styðja verk­efni Árna­stofn­un­ar með svo mynd­ar­leg­um hætti. Lands­bank­inn hf. og Eim­skip munu að auki styrkja verk­efnið um eina millj­ón króna, hvort fyr­ir­tæki.

Verk­efnið nefn­ist „Í fót­spor Árna Magnús­son­ar í Vest­ur­heimi“ og lýt­ur stjórn for­stöðumanns Árnastofnunar. Mark­miðið er að skrá hand­rit í op­in­ber­um söfn­um og einka­eigu í Kan­ada og Banda­ríkj­un­um í gagna­grunn á vefsíðunni hand­rit.is, en Katel­in Par­sons doktorsnemi mun vinna að verk­efn­inu á veg­um stofn­un­ar­inn­ar. Hún hef­ur unnið að rann­sókn­um á hand­rita­eign vest­urfara í fleiri ár og at­hug­an­ir henn­ar benda sterk­lega til þess að þúsund­ir hand­rita hafi verið flutt­ar vest­ur um haf á ár­un­um 1870–1914 og að þau séu enn á víð og dreif meðal annarra óskráðra menn­ing­ar­verðmæta.

Guðrún Nor­dal, for­stöðumaður Árna­stofn­un­ar, og Tryggvi Páls­son, formaður bankaráðs Lands­bank­ans og formaður stjórn­ar Há­skóla­sjóðsins, skrifuðu und­ir samn­ing­inn. Viðstadd­ir voru stjórnarmenn Árnastofnunar og starfsmenn sem koma að verkefninu, rektor Háskóla Íslands, fulltrúar Landsbankans og að auki full­trú­ar úr heiðurs­ráði Þjóðrækni­fé­lags­ins en fé­lagið hef­ur beitt sér öt­ul­lega fyr­ir því að þetta verk­efni getið orðið að veru­leika.