Skip to main content

Fréttir

„Hvers vegna voru stafirnir c, q, z og w felldir úr íslenzka stafrófinu?“

„Hvers vegna voru stafirnir c, q, z og w felldir úr íslenzka stafrófinu?“ er spurt á Vísindavefnum.

Eðlilegast er að líta svo á að með hugtakinu íslenska stafrófið sé átt við mengi stafa sem þarf til að rita íslensk orð eftir íslenskum stafsetningarreglum. Að minnsta kosti frá 1929 (auglýsing frá kennslumálaráðherra) hafa gilt reglur um frágang íslensks ritmáls án c q w og síðan 1974 (auglýsing frá menntamálaráðherra) hefur ekki heldur verið þörf á z til að rita íslensk orð rétt samkvæmt íslenskum ritreglum. Til þess þarf ekki nema 32 bókstafi á okkar tímum. Í öllu ritmáli í heiminum geta hins vegar auðvitað komið fyrir alls konar stafir og tákn við sérstakar aðstæður án þess að það tilheyri í sjálfu sér stafrófi viðkomandi ritmáls. Þegar Danir rita nafn Þórðar þurfa þeir Þ og ó og ð en engum dytti í hug að halda því fram að Þ og ó og ð séu stafir í danska stafrófinu.

Lengra svar og nákvæmara er á Vísindavefnum.

Höfundur: Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

 

Ari Páll Kristinsson.