„Hvað myndu ferðalangar segja ef þeir fengju ekki að sjá píramídana í Egyptalandi, verk Michelangelos í Sixtínsku kapellunni, Monu Lisu í Louvre? ... Handritin okkar eiga að vera nákvæmlega slíkur áfangastaður“ segir Einar Falur Ingólfsson í grein sem birtist í Morgunblaðinu á gamlársdag. Spurt er um forgangsröðun í menningu.
Sumum Íslendingum finnst gaman að halda upp á afmæli. Fyrir rúmu ári var þjóðinni boðið að fagna þegar táknrænum áfanga í varðveislu handritanna var náð – 350 ár voru frá fæðingu Árna Magnússonar handritasafnara. Og í sumar voru 800 ár frá fæðingu Sturlu Þórðarsonar sagnaritara og haldið var upp á það með hátíð í Dalabyggð og alþjóðlegu mál- þingi fyrr í vetur. Kastljósinu var þá beint að ómetanlegum sagnaarfinum og handritunum sem hann geyma. Handritunum sem eru geymd en ekki sýnd. Handritunum sem er sinnt með metnaðarfullum rannsóknum, eins og of lítið fé og erfiðar aðstæður leyfa. Vissulega reynir starfsfólk Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að leyfa áhugasömum að njóta þessara merku verka, til að mynda með sýningum sem settar voru upp á nokkrum stöðum úti á landi í fyrra og bókaútgáfu. En er þjóðin ekki sammála um að þessa fjársjóði okkar, sem eru á heimsminjaskrá sem „minni heimsins“, þurfi að vera hægt að sjá og fræðast um í boðlegu sýningarhúsi? Hvað myndu ferðalangar segja ef þeir fengju ekki að sjá píramídana í Egyptalandi, verk Michelangelos í Sixtínsku kapellunni, Monu Lisu í Louvre, hringinn sem kenndur er við Stonehenge á Englandi, Miklagljúfur í Bandaríkjunum? Handritin okkar eiga að vera nákvæmlega slíkur áfangastaður, enda stolt okkar og grunnur undir sjálfsmynd þjóðarinnar, ásamt tungumálinu og náttúru landsins. En aðgengið að þeim? Eins og er þá er það ekkert.
Fjölbreytileg endurvinnsla
Þrátt fyrir að handritin sjálf séu ekki sýnileg má ekki gleyma því að þau eru í raun gamlar og heillandi hirslur fyrir sagnasjóði sem unnið hefur verið úr um aldir, og sú úrvinnsla heldur áfram, með fjölbreytilegum og frísklegum hætti. Á síðustu misserum hefur fjöldi skapandi listamanna og fræðimanna haldið áfram að vinna með Íslendingasögur, eddukvæði, konunga- og riddarasögur, á forvitnilegan og ferskan hátt, og ólíkar birtingarmyndir þess hafa komið fyrir augu lesenda og áhorfenda. Sem ný dæmi má nefna að Einar Kárason gat ekki stillt sig og bætti við vinsælan þríleik sem hann vann upp úr Sturlungu fjórðu bókinni. Leikhópurinn Aldrei óstelandi frumflutti nýlega leikritið Ofsa sem byggist á einni bóka Einars um efnið og hefur sýningin hlotið verðskuldað lof, meðal annars fyrir áhugaverð og samtímaleg tök á efninu. Bjarni Harðarson hefur sent frá sér bók þar sem hann gefur hinum fláráða Merði Valgarðssyni orðið og hann skýrir sem gamall maður út atburðina sem greint er frá í Njáls sögu, eins og þeir blasa við honum; Guðni Ágústsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, er einn þeirra sem hafa löngum hrifist af Íslendingasögunum og hann skrifaði bók þar sem hann skýrir illa meðferð á Hallgerði langbrók, í Njálu og umtali gegnum aldirnar; og svo berast fregnir af því að eitt stórra verkefna sem kvikmyndaleikstjórinn Baltasar Kormákur vinni að sé kvikmynd um Íslendinga á söguöld, Víkingr, byggð á sögnum og persónum sem greinir frá í handritunum.
Krúnudjásn og miðstöð
Á dögunum kom út ný og einstaklega vönduð útgáfa Hins íslenska fornritafélags á Eddukvæðum í tveimur bindum. Jónas Kristjánsson og Vésteinn Ólason, fyrrverandi forstöðumenn Árnastofnunar, gáfu út og skrifa skýringar; vinnuna hófu þeir fyrir 35 árum. Gagnrýnandi Morgunblaðsins segir Eddukvæðin vera „krúnudjásn íslenskra bókmennta og eitt af öndvegisverkum heimsbókmenntanna“, útgáfuna vera til fyrirmyndar og að hún muni „lengi standa óbrotgjörn í þessu fræðatúni“.
Jónas lést fyrir skömmu en í samtali við Morgunblaðið sagði Vésteinn mikið líf vera í rannsóknum á handritunum. Í raun sæktu fleiri í greinina en hægt væri að taka við.
„Það er mikið líf í þessum rannsóknum eins og sýnir sig í því hversu mikil aðsókn er að miðaldafræði við Háskóla Íslands,“ sagði hann. „Þar einbeita menn sér að þessum fræðum og læra forníslensku; á annað hundrað nemenda í framhaldsnámi sótti um fyrir þetta ár, miklu fleiri en hægt er að taka við. Það liggur við að það séu miklu fleiri útlendir stúdentar að læra íslensku á þessu háa menntunarþrepi við Há- skólann en Íslendingar. Þetta hefur gerst svo hratt að menn hafa vart áttað sig á því.“
Vésteinn bætti við að í kringum Árnastofnun og Háskólann væri merk miðstöð íslenskra
fræða en þegar spurt var hvort stofnunin hefði fé og mannskap til að standa undir því svaraði hann: „Það er erfitt, vissulega. Þess vegna er ekki hægt að taka inn alla sem sækja um.“
Á að skila handritunum?
Vitaskuld einbeita metnaðarfullir fræðimenn sér að því að rannsaka handritin og vinna með sagnaarfinn, innan þess ramma sem fjárlög og yfirvöld setja. Í athyglisverðum fyrirlestri sem Ágúst Einarsson rektor flutti á dögunum um hagræn áhrif ritlistar kom fram að Árnastofnun fékk nánast sömu krónuupphæð á fjárlögum 2014 og tíu árum áður. Og hann var ómyrkur í máli um handritin.
„Við erum ekki með sýningu á handritunum okkar, sem við börðumst fyrir í upp undir öld að fá aftur, vegna fjárskorts,“ sagði Ágúst. „Þá spyr maður sig: af hverju í ósköpunum vorum við þá að fá þessi handrit? Því þau eru ekki eign okkar Íslendinga, þau eru eign heimsins ...Við höfum ekkert leyfi til að hegða okkur á þennan hátt.“
Sjálfsmynd okkar Íslendinga er óumdeilanlega mótuð af arfleifð Sagnanna, rétt eins og af tungumálinu sjálfu og náttúrunni. Þrátt fyrir að fjölhæfir listamenn þeirrar örþjóðar sem við erum skuli blessunarlega leita fanga á ýmsum og ólíklegustu stöðum, í persónulegri upplifun sem sameiginlegum reynsluheimi fjöldans, þá er það aðdáunarvert hvað þessar gömlu sögur sem handritin geyma halda áfram að vera mikilvægur brunnur hugmynda og frjórrar endurvinnslu listafólks í ýmsum greinum.
En það er mikilvægt að spyrja hvort við séum að forgangsraða á réttan hátt. Til að mynda með því að hækka skatt á bækur – bækur á íslensku, þessu örlitla tungumáli sem gerir okkur að þjóð. Það er sérkennileg ráðstöfun, hvernig sem á hana er litið, nú þegar sótt er að tungunni og ungmenni hætta að lesa og hverfa inn í enska málheima. Og ekki er það síður óheppilegt að hvorki við Íslendingar né gestir okkar geti séð handritin á sómasamlegum og metnaðarfullum sýningum. Handritin, þessi minni heimsins, okkar helstu manngerðu fjársjóði. Meðan svo er erum við líklega bara (menningar)þjóð.