Skip to main content

Fréttir

Hrörnun og ófullkomin máltaka

Nýi-Garður Háskóli Íslands.

 

Í málvísindakaffi Íslenska málfræðifélagsins og Málvísindastofnunar HÍ föstudaginn 28. mars heldur Sigríður Mjöll Björnsdóttir erindi sem hún nefnir Hrörnun og ófullkomin máltaka. Nánari lýsing hennar er hér fyrir neðan. Málvísindakaffið verður að venju kl. 11.45-12.45 í st. 301 í Nýja-Garði.

Hrörnun og ófullkomin máltaka

Í nýlegum rannsóknum á erfðamálum (e. heritage languages) eru þrír þættir einkum taldir hafa áhrif á það hvernig þau þróast í einstaklingum: Málhrörnun (e. attrition), ófullkomin máltaka (e. incomplete acquisition) og yfirfærsla frá málinu sem er ráðandi í félagslegu umhverfi málhafans (e. dominant language transfer) (sjá t.d. Benmamoun, Montrul og Polinsky 2010). Í þessum fyrirlestri verður sjónum einkum beint að málhrörnun og ófullkominni máltöku, hvað einkenni þau fyrirbæri og hvað sé líkt og ólíkt með þeim. Með málhrörnun er átt við að málhafi, sem náði fullum tökum á móðurmáli sínu í barnæsku, tapi smám saman þekkingu sinni á því. Ef málhafi hættir af einhverjum ástæðum að nota móðurmál sitt, t.d. vegna búsetuflutninga, þá er nánast öruggt að ákveðnir þættir málfræðinnar einfaldist eða taki breytingum.

Það er erfitt að rannsaka hvernig hrörnun á sér stað í einstaklingum á æviskeiðinu og engar langsniðsrannsóknir hafa enn verið gerðar í slíkum tilgangi. Því mun meiri fengur er að heimildum frá þremur tvítyngdum vesturíslenskum málhöfum, sem ná yfir nánast allt æviskeið bréfritaranna. Gögnin eru traustur vitnisburður um hrörnun, þar sem þau staðfesta að málhafarnir náðu fullum tökum á móðurmálinu í barnæsku. Í þessum fyrirlestri verða þessi gögn kynnt og gerð grein fyrir því hvað er líkt og ólíkt í þróun málfræðinnar hjá málhöfunum, sem og hvaða spurningar vakni í kjölfarið. Til samanburðar verða borin saman gögn frá nokkrum vesturíslenskum málhöfum, sem talið er að móðurmálskunnátta hafi staðnað hjá strax í æsku vegna takmarkaðs ílags og því hafi máltakan verið ófullkomin.