Skip to main content

Fréttir

Heimsókn samstarfsaðila frá Íslandi til háskóla í Slóvakíu

Hópur fólks stendur við borð. Á borðinu eru ýmis gömul skjöl til sýnis.
Heimsókn í Þjóðskjalasafnið í Nitra.
Branislav Bédi

Árnastofnun tekur þátt í samstarfsverkefni um nýja tækni við að kenna erlendum málhöfum þjóðtungur. Verkefnið hófst í september síðastliðnum þegar fulltrúar frá Konstantínháskóla í Nitra í Slóvakíu heimsóttu Árnastofnun, námsgrein í hagnýtri íslensku við Háskóla Íslands og Vigdísarstofnun til að fræðast um sumarskóla í íslenskri tungu og menningu, hagnýt íslenskunámskeið við Háskóla Íslands og kennsluaðferðir sem notaðar eru í tengslum við þessi námskeið. Einnig var rætt mikilvægi netnámskeiðsins Icelandic Online sem undirbúning fyrir íslenskunámskeið. Auk þess var boðið upp á hraðnámskeið í slóvakísku fyrir áhugasama. 

Hópur fólks við U-laga fundarborð. Pappírar og ýmislegt annað á borðum.
Þátttakendur verkefnisins á málstofu sem haldin var við Konstantínháskóla í Nitra.

Að þessu sinni heimsóttu íslenskir fulltrúar samstarfsaðila við Konstantínháskóla í Nitra. Frá Árnastofnun var það Branislav Bédi, verkefnisstjóri á íslenskusviði, sem stýrir verkefninu, frá Háskóla Íslands voru það kennararnir Jón Bjarni Atlason, Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, Salome Lilja Sigurðardóttir og Védís Ragnheiðardóttir og frá Vigdísarstofnun verkefnisstjórinn Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir. Þau fræddumst um aðferðir þar við að kenna erlendum nemum slóvakísku.. Auk þess kynntu fulltrúarnir sér tungumálanámskeið við valinn grunnskóla þar sem ný tilraunaaðferð hefur verið þróuð til að stuðla að betri kennslu í ensku í gegnum lestur og tjáskipti. Auk kynninga á starfi tungumálakennara var boðið upp á þriggja daga hraðnámskeið í íslensku sem var vel sótt. Fulltrúar verkefnisins frá báðum löndum héldu málstofu um aðferðir í kennslu þjóðmála fyrir erlenda málhafa og notkun nýrra aðferða í málakennslu. Í framhaldi af þessu verður haldið málþing á Íslandi næsta vor þar sem samstarfsaðilar verkefnisins ætla að kynna rannsóknir sínar á þessu fræðasviði.

Til viðbótar voru heimsóttar menningarstofnanir á svæðinu, Þjóðskjalasafn og bókasafn Biskupsstofu í Nitra, til að kynnast betur sögu landsins út frá sjónarhóli máls og menningar.

Verkefnið er stutt af uppbyggingarsjóði EES og er lögð áhersla á miðlun þekkingar á sviði annarsmálsfræða, menningar og notkun tækni í kennslu tungumála.