Skip to main content

Fréttir

Heimsókn mennta- og menningarmálaráðherra

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, kom 2. febrúar, ásamt fylgdarliði í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Lét hann sig ekki muna um að heimsækja allar þrjár starfsstöðvarnar við Laugaveg, á Þingholtsstræti og í Árnagarði við Suðurgötu.

Á Laugavegi skoðaði hann örnefnasafn stofnunarinnar og Grásíðu, sem geymir seðlasöfn sem meðal annars eru grunnur hins viðamikla Ritmálssafns.

Ráðherra kynnti sér einnig Íslex-orðabókarvefinn.

Ari Páll Kristinsson rannsóknarprófessor hittir Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra. Mynd: Jóhanna Ólafsdóttir.

 

Starfsfólk alþjóðasviðs Árnastofnunar gaf m.a. upplýsingar um íslenskukennslu utan Íslands en um 100 háskólar víða um heim kenna íslensku, ýmist fornmál eða nútímamál.

Guðrún Nordal, Kristján Þór Júlíusson og Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor á alþjóðasviði. Mynd: Jóhanna Ólafsdóttir.

 

Við komuna í Árnagarð var safnast saman á Málstofu, þar sem farið var yfir brýnustu úrlausnarefni svo stofnunin megi sinna lögbundnu hlutverki sínu í nánustu framtíð.

Mannfagnaður á Málstofu í Árnagarði. Mynd: Jóhanna Ólafsdóttir

 

Heimsókn ráðherra og föruneytis lauk með innliti í handritageymsluna, þar sem mátti sjá elsta brot úr skinnhandriti Svarfdæla sögu frá því um 1450.

Öll augu beinast að skinnblaði frá um 1450 sem hluti Svarfdæla sögu er ritaður á. Mynd: Jóhanna Ólafsdóttir. Þar mátti einnig skoða bók sem lætur fremur lítið yfir sér en er þó kölluð Konungsbók Eddukvæða GKS 2365 4to. Konungsbók er elsta og merkasta safn eddukvæða sem varðveist hefur og telst frægust allra íslenskra bóka.

Hér má finna frekari upplýsingar um Konungsbók Eddukvæða á handrit.is.

 

Heimsókninni lauk í handritageymslunni með því að skoða nýuppgötvað handrit Njálu, sem Willard Larson í Seattle, færði stofnuninni að gjöf, síðasta haust.