Skip to main content

Fréttir

Handritin eru á leið til barnanna með nýju umfangsmiklu verkefni Árnastofnunar

nemendur úr Melaskóla
María Gísladóttir tók myndina af nemendum í 6. bekk í Melaskóla.

Markmiðið með verkefninu Handritin til barnanna er að auka vitund og áhuga barna á menningararfinum sem býr í íslenskum miðaldahandritum. Árið 2021 verður liðin hálf öld frá því að fyrstu handritunum var skilað frá Danmörku en þau komu með herskipinu Vædderen sem lagðist að bryggju við gömlu höfnina í Reykjavík síðasta vetrardag, 21. apríl 1971. Af því tilefni safnaðist mikill mannfjöldi saman í miðbænum og fagnaði áfanganum. Handritin hafa síðan verið varðveitt á Árnastofnun í Árnagarði við Suðurgötu.

Vorið 2021 verður þessum tímamótum fagnað með sérstökum viðburði á Barnamenningarhátíð. Þá verða nemendur í 6. bekk verðlaunaðir fyrir sín eigin handrit við hátíðlega og skemmtilega athöfn sem ráðgert er að fari fram í Hörpu. Upptakturinn að lokaviðburðinum felst í rafrænum kennslustundum og heimsóknum fræðslufulltrúa frá Árnastofnun í 50 grunnskóla um allt land þar sem nemendum býðst lifandi og fróðlegur fyrirlestur um leyndardóma handritanna.

Handritin til barnanna
María Gísladóttir tók myndina

Verkefnið Handritin til barnanna fékk styrk úr Barnamenningarsjóði árið 2019. Snemma árs 2020 fékk fræðsluhluti verkefnisins svo fjárstyrk úr Þróunarsjóði námsgagna. Kristjana Friðbjörnsdóttir rithöfundur hefur útbúið rafræna kennslustund fyrir sjöttu bekkinga sem verður send í grunnskóla landsins þegar í upphafi næsta skólaárs. Fyrsta prufukeyrsla á námsefni Kristjönu fór fram í Melaskóla í lok vorannar 2020 og var ljóst að nemendurnir voru tilbúnir til að opna augun fyrir því sem í handritunum býr.

Verkefnið tengist jafnframt ritsmíðum rithöfundarins Arndísar Þórarinsdóttur sem vinnur nú að fjölskyldubók um langa sögu eins af handritunum. Handritið sem er söguhetja bókar Arndísar nefnist Möðruvallabók, en talið er handritið hafi verið skrifað á Íslandi um miðja 14. öld. Á 17. öld var það sent til Kaupmannahafnar, þaðan sem það sneri aftur til Íslands seint á 20. öld. Fjárstyrkur til að skrifa bókina fékkst frá Hagþenki, félagi höfunda fræðirita og kennslugagna.

Nýsköpunarsjóður námsmanna veitti verkefninu svo enn frekara brautargengi með því að veita háskólastúdent, sem nemur íslensku við Háskóla Íslands, styrk til að vinna að verkefninu á lærdómsríkan og skapandi hátt í sumar. Starf stúdentsins felst meðal annars í ritstjórnarvinnu við nýjan vef, ætlaðan börnum og ungmennum. Vefurinn, sem verður opnaður í ágúst 2020, gerir handritunum og íslenskri tungu skil með fræðandi leikjum, myndrænni framsetningu og ýmiss konar tilraunastarfsemi.