Skip to main content

Fréttir

Handritasafn Árna Magnússonar tilnefnt á lista UNESCO

Handritasafn Árna Magnússonar í Reykjavík og Kaupmannahöfn var tilnefnt á lista UNESCO 'Memory of the World International Register'.

Ákvörðun UNESCO er grundvölluð á vönduðu mati og felur í sér mikla viðurkenningu á íslenskum handritaarfi. Í rökstuðningi segir að handritasafn Árna Magnússonar geymi ómetanleg handrit um sögu og menningu Norðurlanda, og raunar stórs hluta Evrópu, allt frá miðöldum til nýaldar, og eru Íslendingasögurnar nefndar sem sérstakt dæmi um þau verk á heimsvísu sem handritin geyma. Handritasafnið geymir um 3000 handrit frá miðöldum og síðari öldum.

„Langt er síðan sú hugmynd fæddist að tilnefna handritasafn Árna Magnússonar til skráningar á lista UNESCO um minni heimsins (Memory of the World Register). Heimilt er að tvö lönd tilnefni saman, og þess vegna er gert ráð fyrir að Ísland og Danmörk standi saman að þessari tilnefningu. Tillögu um þetta og greinargerð með henni sömdum við í samvinnu við Peter Springborg á Árnasafni í Kaupmannahöfn og þá deild menntamálaráðuneytis sem fer með málefni UNESCO. Tillagan var send menntamálaráðherra seint á síðasta ári og lögð fyrir ríkisstjórnina og samþykkt föstudaginn 25. janúar síðast liðinn. Stofnuninni var falið að fylgja málinu eftir“ sagði Vésteinn Ólason, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um aðdraganda þess að stofnuninni var falið að vinna að tilnefningu handritasafnsins af Íslands hálfu.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu UNESCO má rekja verkefnið um minni heimsins til ársins 1992. Tilgangurinn er að vekja athygli á mikilvægi þess að varðveita andlegan menningararf veraldar. Þjóðir heimsins geta tilnefnt skjöl og rit á listann.

Handritasafn Árna Magnússonar geymir fjölda handrita frá miðöldum og síðari öldum. Meiri hluti safnsins eru íslensk handrit en einnig eru þar norsk, dönsk og sænsk handrit. Á handritasýningu stofnunarinnar má skoða ýmis merkustu handrit þjóðarinnar. Sýningin er í Þjóðmenningarhúsinu og er opin alla daga vikunnar.