Skip to main content

Fréttir

Handrit til sýnis á Njálulokahátíð

Sýning á handritum Njálu nóvember 2015.

 

Í tilefni þess að nú eru rétt eitt þúsund ár frá síðasta atburði Brennu-Njálssögu var blásið til Njálulokahátíðar í Sögusetrinu á Hvolsvelli um liðna helgi. Jakob S. Jónsson leikstjóri og leiðsögumaður las alla Njálu í Söguskálanum í Sögusetrinu og hófst lesturinn laugardaginn 7. nóvember kl. 11:00 árdegis. Lestrinum lauk um þrjúleytið aðfaranótt mánudags 9. nóvember.

Á heimasíðu Sögusetursins á Hvolsvelli kemur fram að Jakob muni hafa lesið bókina samkvæmt reglum Heimsmetabókar Guinness um heimsmetstilraun í þindarlausum sögulestri. Það þýðir að Jakob fékk aðeins fimm mínútna hvíld á hverjum hálftíma til að næra sig og smyrja raddböndin. Reglunum var að sögn fylgt í hvívetna. Ekki var þó um formlega heimsmetstilraun að ræða að þessu sinni. Ekki er vitað til þess að Njála hafi áður verið lesin í heild sinni frammi fyrir áhorfendum af einum lesara, að minnsta kosti ekki öldum saman.

Tvö af handritum Njálu voru til sýnis í Sögusetrinu í nokkrar klukkustundir á laugardeginum. Þetta voru AM 163 d fol – Ferjubók og AM 466 4to – Oddabók, sjá nánari upplýsingar um þau hér að neðan. Handritin eru varðveitt á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík og voru flutt austur í lögreglufylgd ásamt tveimur starfsmönnum stofnunarinnar. Þetta var einstakur atburður þar sem þetta var í fyrsta sinn sem upprunalegt Njáluhandrit hefur verið til sýnis á Njáluslóðum.

Viðburðurinn var styrktur af Menningarráði Suðurlands og sveitarfélaginu Rangárþingi eystra og voru allir velkomir. Um viðburðinn var meðal annars fjallað í kvöldfréttum Stöðvar 2.

 

Um handrit Njálu

Njáls saga var samin um 1280 og hefur notið meiri vinsælda en nokkur önnur Íslendingasaga, sem marka má af fjölda handrita. Frá miðöldum eru til rúmlega 20 skinnhandrit og handritabrot, en um 40 pappírshandrit frá síðari öldum. Efnið er stórfenglegt, persónurnar lifandi og sögusviðið vel þekkt. Vígaferli og sættir skiptast á, en hæst rís frásögnin í lýsingum á vígi Gunnars á Hlíðarenda og brennu Njáls. Tilsvör eru hnyttin og söguhetjur margar, hver með sínum sérkennum.

Einar Ól. Sveinsson prófessor rannsakaði handrit Njáls sögu vandlega og gaf söguna út 1954. Hann sýndi fram á að handrit Njáls sögu skiptast í þrjá meginflokka. Reykjabók, AM 468 4to er talin elst Njáluhandrita og er hún varðveitt í Árnastofnun í Kaupmannahöfn. Til sama flokks teljast Kálfalækjarbók, Skafinskinna, Sveinsbók og fleiri handrit. Möðruvallabók, AM 132 fol. sem varðveitt er á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík telst helsti fulltrúi annars handritaflokks. Af sama meiði er Oddabók, Bæjarbók og fleiri handrit. Til þriðja flokksins telst Gráskinna sem varðveitt er í Reykjavík. Þá eru ótalin hin mörgu handrit þar sem aðeins brot af sögunni eru varðveitt. Pappírshandritin eru enn fleiri en skinnhandritin. Af þeim er einna þekktast Hvammsbók, AM 470 4to, skrifað af Katli Jörundssyni, afa Árna Magnússonar.

 

AM 163 d fol – Ferjubók

Pappírshandrit sem hefur að geyma Flóamanna sögu og Njáls sögu. Það er skrifað á tímabilinu 1650–1683 af óþekktum skrifara og var áður hluti af stærri bók með fleiri Íslendingasögum, t.d. Vatnsdæla sögu og Grettis sögu. Þá bók keypti Árni Magnússon af Sigurði Magnússyni (f. 1642) á Sandhólaferju árið 1711 og tók í sundur.  Af fyrirsögn Flóamannasögu sést að tengslin við landsvæðið Suðurland eru mikilvæg: „Saga af nokkrum landnamdsmønnum Sunnlendinga, sierdeilis Þorgils Þordarsyne kaulludum orrabeins föstra og nockrum Flöa monnum.“ Njála hefur víðari skírskotun: „Njaala edur Jslendijnga Saga.“ Athugasemdir á spássíu eru til glöggvunar lesendum, þar eru upplýsingar um kafla, vísur, atburði og mikilvæga staði í sögunni, t.d. Unnur skilur við Hrút (bl. 9r), Þjóstólfur drepur Þorvald bónda Hallgerðar að hennar áeggjan, Njáll leggur ráð til að ..., Kristni kemur til Íslands (bl. 23v), Njáls brenna stóð 1011 þann 21. ágúst, á mánudagskvöld af því átta vikur lifðu sumars þann sunnudag sem Flosi reið heiman frá til brennunar. Sem sagan vottar (bl. 28v)

Stofnun Árna Magnússonar í íslensku fræðum tók við handritinu 15. október 1974.

 

AM 466 4to – Oddabók

Skinnhandrit sem hefur að geyma Njáls sögu og talið skrifað um 1460.  Skrifari óþekktur. Þorleifur Jónsson átti handritið árið 1645 eins og fram kemur á blaði 46r. Þorleifur var skólameistari í Skálholti 1647 og prestur í Odda frá 1650 til dauðadags. Árni Magnússon handritasafnari fékk handritið frá syni Þorleifs, Birni (1663–1710), þá presti í Odda (1690–1697) en síðar biskupi á Hólum. Uppskrift hefur verið gerð eftir handritinu, líklega á 16. öld, sbr. blað 51v, en þar stendur: „Fá þú ómak svo drjúg sem þú ert. Það mun þeim þykja sem eftir þér klórar“. Í handritinu eru næstum engar lýsingar (myndskreytingar) en þó er teikning af hermanni með höggspjót og skjöld á spássíu á bl. 44r. Á spássíu má sums staðar sjá athugasemdir skrifarans um aðbúnað sinn, t.d. skrifar hann á bl. 26r: „Illa gerir þú við mig, Dóri, þú gefur mér aldrei fiskinn nógan, frændi minn“.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók við handritinu 7. október 1975.

 

Guðvarður í djúpum samræðum um handrit Njálu á Nálusýningu í nóvember síðastliðnum.