Gripla XIX (2008) sem gefin er út af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er komin út, fjölbreytt að vanda.
Allt að fjórðungur íslenskra skattbænda á 17. öld kunni að skrifa
Eftir andlát Stefáns Karlssonar handritafræðings árið 2006 fundust tvær nær frágengnar greinar í fórum hans. Þær koma nú fyrir almenningssjónir í 19. hefti Griplu, alþjóðlegu tímariti Árnastofnunar um íslensk og norræn fræði, og snúast báðar um rannsóknir Stefáns á því að hve miklu leyti veraldlegir höfðingjar og frjálsir bændur á Íslandi hafi kunnað að skrifa á fyrri öldum. Sú fyrri hnitast um bókagerð Ara lögmanns Jónssonar, langafa Brynjólfs biskups Sveinssonar, en í þeirri síðari rýnir Stefán í rithendur þeirra sem settu nöfn sín undir hollustueiða við Friðrik 3. árið 1649 – og kemst að þeirri niðurstöðu að nær fjórðungur skattbænda hafi kunnað að skrifa. Þá fylgir grein Elisabeth Ashman Rowe við Cambridge-háskóla um það hvernig Haukur Erlendsson lögmaður notaði hið þekkta handrit sem við hann er kennt til að greiða fyrir starfsframa sínum í Noregi í upphafi 14. aldar; Elena Gurevich við Rússnesku vísindaakademíuna í Moskvu sýnir hvernig ævintýraleg frásögn Þorsteins þáttar forvitna í Flateyjarbók hafi átt að auka tiltrú fólks á bardaga Haralds konungs Sigurðarsonar við dreka; Kate Heslop við háskólann í Zürich dregur fram hvernig togstreitan milli hins forna siðar og nýja, hins munnlega og skrifaða, kemur fram í þeirri rödd sem miðlar dróttkvæðum í Íslendingasögum; Viðar Pálsson við háskólann í Berkeley bendir á viðtökur hinnar fornu goðafræði í Sturlungu; Haukur Þorgeirsson við HÍ tekur dæmi um hvernig kenningar í rímum síðari alda geta varpað ljósi á lesbrigði í miðaldahandritum Snorra Eddu; Kirsten Wolf við háskólann í Wisconsin gefur út jarteinir Katrínar af Alexandríu, á latínu og í íslenskri þýðingu frá miðöldum; Þórunn Sigurðardóttir við Árnastofnun ræðir og gefur út tvær 17. aldar ritgerðir um skáldskap, aðra eftir Magnús prest Ólafsson í Laufási en hina eftir ókunnan höfund; Sigrún Steingrímsdóttir við Manitobaháskóla skrifar um íslenskar þýðingar á sálmum danska barokkskáldsins Thomas Kingo, en hann orti m.a. Passíusálma sem Sigrún telur að Jón biskup Vídalín hafi þýtt á íslensku í upphafi 18. aldar; Sigríður Magnúsdóttir í Reykjavík bendir á að þýðingarvilla hafi orðið til þess að því hefur verið haldið fram að Brynjólfur biskup Sveinsson hafi ráðið Stefáni Ólafssyni skáldi frá því að þiggja stöðu fornfræðings við bókasafn Mazarins kardínála í París árið 1647; og loks þaulkannar Gísli Baldur Róbertsson við Þjóðskjalasafn Íslands ævi orðabókarhöfundarins Guðmundar Andréssonar (sem er vel þekktur fyrir Deilurit sitt gegn Stóradómi og sem aðalpersóna í Brotahöfði, skáldsögu Þórarins Eldjárns) og sýnir fram á tengsl Guðmundar við Björn á Skarðsá. Að auki birtist ritdómur Bergsveins Birgissonar við Björgvinjarháskóla um fyrsta útgefna bindi hinnar nýju heildarútgáfu dróttkvæða sem fór af stað árið 2007.
Umsjón með þessu hefti Griplu var í höndum Margrétar Eggertsdóttur en með henni í ritnefnd sátu Gísli Sigurðsson, Svanhildur Óskarsdóttir og Úlfar Bragason.
301 bls. ISBN: 978-9979-819-99-8
Leiðbeinandi verð: 3.900,- Háskólaútgáfan annaðist prentþjónustu og dreifir ritinu.