Skip to main content

Fréttir

Goðsagnir og minningar að baki Arons sögu

Fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands: Hvað eru minningar? 7. febrúar 2012

Goðsagnir og minningar að baki Arons sögu
Fyrirlesari: Úlfar Bragason


Útdráttur:
Arons saga Hjörleifssonar er í hópi svokallaðra veraldlegra samtíðarsagna. Hún mun upphaflega hafa verið skrifuð á fyrrihluta 14. aldar. Sagan er ekki varðveitt í Sturlungu, sem er samsteypa annarra veraldlegra samtíðarsagna, heldur sérstök og er því líklegast yngri en samsteypan. Arons saga er ævisaga einnar af hetjum 13. aldar. Samkvæmt sögunni var Aron mikill stuðningsmaður Guðmundar biskups Arasonar í deilum hans við höfðingja, einkum Sturlunga. Gerðu þeir Aron útlægan. Hann varð seinna hirðmaður Hákonar Hákonarsonar Noregskonungs og lést í Noregi 1255. Saga Arons vakti áhuga margra. Sagt er frá honum í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar og Ólafur hvítaskáld, bróðir Sturlu, orti um hann erfikvæði. Þormóður Ólafsson orti um Aron tvö kvæði. Þá er sagt frá Aroni í Guðmundar sögu biskups. Í erindinu verður rætt um sambandið milli þessara heimilda um ævi Arons og minningar og mýtur sem saga hans gæti verið reist á.

Úlfar Bragason er rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hann lauk doktorsprófi frá Kaliforníuháskólanum í  Berkeley 1986, kenndi við Chicagoháskóla 1986-87 og var forstöðumaður Stofnunar Sigurðar Nordals 1988-2006. Veraldlegar samtíðarsögur og vesturferðir Íslendinga á 19. öld eru meginrannsóknarsvið hans. Árið 2010 gaf Háskólaútgáfan út bók hans Ætt og saga sem fjallar um frásagnarfræði Sturlungu.

Hádegisfundur Sagnfræðingafélags Íslands í fyrirlestraröðinni: Hvað eru minningar?
Staður: Þjóðminjasafn Íslands
Stund: Þriðjudaginn 7. febrúar frá 12:05 til 13:00
Aðgangur ókeypis og öllum opinn