Icelandic Saga Map verkefnið vann til fyrstu verðlauna í samkeppni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands árið 2015.
Verkefnið er hugarfóstur dr. Emily Lethbridge sem er sérfræðingur hjá Miðaldastofu innan Hugvísindasviðs Háskóla Íslands sem hefur aðstöðu á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Rannís styrkir verkefnið ásamt Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Auk Emily hafa Trausti Dagsson, þjóðfræðingur og forritari, og Hjördís Erna Sigurðardóttir, meistaranemi í sagnfræði við Háskóla Íslands og aðstoðarmaður við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, unnið að verkefninu og hafa að auki notið liðsinnis Loga Ragnarssonar, forritara hjá QLIK, og Gísla Pálssonar, doktorsnema við Umeå Háskóla í Svíðþjóð.
Icelandic Saga Map er vefsíða og rafrænt tól sem er öllum aðgengilegt á netinu. Þar eru textar allra Íslendingasagnanna kortlagðir, hnitsettir og tengdir landkorti með því að beita landupplýsingafræðilegum aðferðum eða GIS. Verkefnið og kortið hafa það að markmiði að sýna tengsl milli sagna og landslags, undirstrika hvernig sögurnar og sögustaðirnir skarast og gera fólki kleift að lesa og upplifa sögurnar út frá landslaginu.
Vinnan við að þróa hugtakið og vinna rafræna kortið hófst árið 2012. Nú eru allar Íslendingasögur komnar á kortið og er vinna við að hnitsetja Landnámabók nýlega hafin. Stefnt er á að bæta við fleiri textum, svo sem Sturlunga sögu, biskupasögum og Íslendingaþáttum, og einnig þýðingum Íslendingasagnanna.
Rafræna kortið hefur þann kost að mörgum markhópum er gert kleift að nálgast sama efni í einu. Þeir sem nú þegar geta nýtt sér Icelandic Saga Map skiptast í þrjá flokka: Akademískir notendur (svo sem vísindamenn og einnig kennarar á öllum stigum), áhugamenn (svo sem almennir lesendur sagnanna og ferðamenn til Íslands) sem og notendur tengdir fyrirtækjum í atvinnulífinu.