Skip to main content

Fréttir

Fyrirheit á Melunum

Grunnur að Húsi íslenskunnar.

 

Grunnurinn að Húsi íslenskra fræða á Melunum í Reykjavík er ekki aðeins opið sár. Þessi óræstilega, djúpa og víða hola er líka fyrirheit. Verkefni okkar allra er að tryggja að húsið rísi sem allra fyrst, sárið grói og fyrirheitið rætist.

Við hrósum okkur réttilega af íslenskri þjóðmenningu, af aldalöngu varanlegu samfélagi í móðurmáli og bókmenntum, og af óvenjulega náinni menningarsamfylgd allrar þjóðarinnar.

En ekkert er sjálfgefið. Ekkert í slíkum efnum er ókeypis eða sjálfkrafa komið í hendur. Fámenn þjóð í opnum samskiptum við aðra verður líka að huga að sínu, rækta arfleifð sína og hafa metnað og staðfestu til að ávaxta pund sitt og leggja aukið eigið gróðurmagn til framtíðarinnar.

Nú um stundir er þjóðmenning okkar undir miklum þrýstingi og áreynslu. Öldur alhliða áhrifa frá nágranna- og skyldþjóðum streyma yfir okkur. Öll svið þjóðlífs og mennta eru snortin. Kunnáttumenn álíta að móðurmál okkar, íslenskan, sé í lífshættu, í hættu að þagna á lifandi vörum en verða stirðnað og liðið bókmál. Uppalendur þekkja þetta af börnum sínum, þrásetnum við tölvuskjáina. Athugulir hlustendur hljóðmiðla taka líka eftir viljalitlu undanhaldi.

Íslenskan er alls ekki flóknara eða erfiðara tungumál en önnur. Enskan er ægiflókin, með orðaforða sinn, orðasambönd sagna, réttritun, mállýskur og margt annað. Nokkur atriði í íslenskum framburði vefjast fyrir útlendingum, en annars viðgengst hér sama hljóðfræði og meðal margra Evrópuþjóða. Sérhljóðabreytingar inni í orði koma mörgum á óvart og líka mismunandi föll andlags. Líklega er þó orðaforði íslenskrar hreintungustefnu sá þáttur sem mestri fyrirhöfn veldur.

En fámenn þjóð, sérstætt örfámennt málsamfélag, verður að hafa metnað, verður að hafa vilja sjálft til að lifa og dafna. Vilji er allt sem þarf, - metnaður, reisn og heilbrigt þjóðarstolt. Við erum alltaf á prófi og verðum alltaf á prófi. Byggð Íslands var, er og verður ævinlega undir vilja og ásetningi þjóðarinnar komin. 

Reynsla þjóðarinnar kennir að svo best dafnar og eflist íslensk þjóðmenning að hún sé í nánum, frjálsum og lifandi samskiptum við menningu og menningarstrauma annarra þjóða. Samskipti styrkja allt það sem er lífvænt og frjótt. Gagnvirkir lærdómar og áhrif efla báðum megin. En einangrun leiðir til hnignunar.

Nú stöndum við frammi fyrir gerbreyttum aðstæðum og okkur vantar áhöld og tæki til að lyfta íslensku móðurmáli inn í tölvuvædda framtíð. Nú er spurt hvort þetta verði á íslensku eða ensku. Þessi framtíð blikar nú þegar í augum barnanna í landinu þar sem þau sitja við skjáinn, þátttakendur í sameiginlegri framtíð allra.

Jón Sigurðsson.

Hús íslenskra fræða er ekki aðeins falleg táknmynd. Húsið verður miðstöð rannsókna, verndar og sköpunar. Við vitum að það er í mörg horn að líta og önnur fyrirheit um mikilvægar byggingar bíða líka. Ekki skal gert lítið úr því. En hér má ekki heldur bíða, dragast eða hika. Hér á að rísa orkustöð íslenskunnar, aflstöð íslenskrar þjóðmenningar, með vit og þrek sem minna á Hliðskjálf, Gimli og Mímisbrunn.

 

            Höfundur er Jón Sigurðsson fyrrverandi skólastjóri.