Stór hópur starfsmanna Árnastofnunar fór í fræðslu- og skemmtiferð til Þýskalands í byrjun ágúst. Fyrst var ferðinni heitið til Leibniz-Institut für Deutsche Sprache (IDS) í Mannheim. Forstöðumaður stofnunarinnar, dr. Henning Lobin prófessor, kynnti starfsemi hennar og dr. Andreas Witt prófessor sagði frá deild sem hann stýrir um stafræn málvísindi (Digitale Sprachwissenschaft) og heldur meðal annars utan um CLARIN-máltækniverkefnið í Þýskalandi – líkt og Árnastofnun gerir á Íslandi. Þeir gerðu m.a. grein fyrir starfi samráðsnefndar um réttritun á þýska málsvæðinu, skráningu og miðlun upplýsinga um ný orð í þýsku, frá risamálheildum stofnunarinnar, rekstri stafrænna rannsóknarinnviða og vefgáttunum OWID (Online-Wortschatz-Informationssystem Deutsch) og grammis (Grammatisches Informationssystem). Einnig hélt dr. Paweł Kamocki fræðsluerindi um lögfræðileg álitamál, annars vegar um stöðu þýsku sem opinberrar tungu og hins vegar um höfundarréttarmál sem þarf að greiða úr við gerð málheilda. Miðlunarsvið Árnastofnunar fékk sérstaka kynningu á þeirri öflugu hlið starfseminnar hjá IDS, s.s. á notkun samfélagsmiðla og hvers kyns miðlun og útgáfum.
Daginn eftir lá leiðin til borgarinnar Worms á slóðir Niflunga í Niflungaljóðinu sem Íslendingar þekkja betur úr hetjukvæðum Eddu, Völsunga sögu og óperum Richards Wagners um sama efni. Í Worms tók Olaf Mückain, forstöðumaður helstu safna í borginni, á móti hópnum og kynnti félaga sína sem sinna Niflungaarfinum og viðtökum Eddufræða á þessum slóðum – þar sem fólk glímir enn við arfleifð misnotkunar nasista á norrænum goðsögum og hetjukvæðum á tímum Þriðja ríkisins.
Ferðinni lauk í borginni Bayreuth þar sem óperuunnendur gátu séð sýningu í Festspielhaus á Hollendingnum fljúgandi eftir Wagner. Síðasta morguninn var farið í gamla óperuhúsið sem er á heimsminjaskrá UNESCO (þótt það hafi ekki verið nógu gott fyrir Wagner) – áður en Sven Friedrich forstöðumaður Wagnersafnsins tók á móti hópnum á sögufrægu heimili tónskáldsins og gerði grein fyrir því erfiða uppgjöri við arfleifð nasismans meðal afkomenda Wagners sem rakið er á sýningu safnsins.