Skip to main content

Fréttir

Flest­ar doktors­rit­gerðir við HÍ skrifaðar á ensku

Háskóli Íslands.

 

Fréttina skrifaði Guðni Einarsson og birtist hún í Morgunblaðinu 4. júlí (bls. 18).

Norrænu þjóðtungurnar eiga í vök að verjast fyrir ásókn enskunnar innan norrænna háskóla. Það á við um ritun fræðilegra greina og prófritgerða í framhaldsnámi, t.d. í doktorsnámi. Sama gildir um kennsluna, einkum í framhaldsnámi. Margir hafa áhyggjur af þróuninni og framtíð norrænna tungumála.

Norræna ráðherranefndin hefur gefið út skýrslu um sambúð enskunnar og norrænu þjóðtungnanna í norrænum háskólum. Skýrslan er ávöxtur samstarfs 18 norrænna fræðimanna sem söfnuðu saman og unnu úr upplýsingum um notkun ensku annars vegar og viðkomandi þjóðtungu hins vegar í norrænum háskólum. Ritið heitir Hvor parallelt og er hægt að sækja það rafrænt á slóðinni: www.norden.org/sv/publikationer/publikationer/2014-535.

Leiðarljós í samstarfsverkefninu var Yfirlýsing um málstefnu Norðurlanda, sem menntamálaráðherrar Norðurlandaríkjanna undirrituðu árið 2006. Samþykkt ráðherranna þykir bera með sér að fulltrúar allra Norðurlandaþjóða séu uggandi um stöðu þjóðtungna þeirra gagnvart ensku í háskólakennslu og rannsóknum.

Fram kemur í skýrslunni að enskan sæki hvarvetna á í starfi háskólanna. Í íslenskum háskólum eru t.d. námsbækur að miklu leyti á ensku, það færist í vöxt að kennt sé á ensku og meirihluti doktorsritgerða og fræðigreina er skrifaður á ensku. Fjölgun erlendra námsmanna og kennara í háskólunum er talin ýta undir aukna enskunotkun og valda því að enskan tekur völdin í fyrirlestrarsölum og ritgerðasmíði.

Ari Páll Kristinsson Ari Páll Kristinsson rannsóknarprófessor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Haraldur Bernharðsson dósent, Háskóla Íslands, rituðu kaflann um tungumálanotkun í íslenska háskólasamfélaginu. Grein eftir þá um sama efni, Íslenska og enska í íslensku háskólastarfi, birtist í tímaritinu Orði og tungu í maí síðastliðnum.

Haraldur Bernharðsson Ari Páll og Haraldur benda m.a. á samþykktir Alþingis um íslenska málstefnu og stöðu íslenskrar tungu. Alþingi samþykkti þingsályktun um íslenska málstefnu (Íslenska til alls) árið 2009 og árið 2011 lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Þeir telja lögin fela augljóslega í sér það markmið að íslenskt mál sé nothæft í öllum greinum vísinda sem stundaðar eru á Íslandi.

Ari Páll segir við Morgunblaðið það eitt af helstu markmiðum íslenskrar málstefnu að íslenska verði nothæf og notuð á öllum sviðum þjóðfélagsins. Skólar, háskólastarf og rannsóknir séu sérstaklega tilteknar í því sambandi.

„Eftir því sem meira er kennt á ensku, frekar en íslensku, minnka líkurnar á því að íslenskan haldi velli sem tungumál í rannsóknum og háskólakennslu", segir Ari Páll.

Hann segir að Íslendingar séu í mjög áþekkri stöðu og Danir, Finnar, Norðmenn og Svíar hvað þetta varðar. Á síðustu 15-20 árum hafi erlendum námsmönnum fjölgað mjög í íslenskum háskólum. Þeir séu 6-7% háskólanema og margir þeirra við nám á framhaldsstigi. Viðbrögð kennara og háskóladeilda hafi oft verið þau að fara að kenna á ensku af tillitssemi við útlendingana. Ari Páll og Haraldur benda m.a. á það í grein sinni að í háskólasamfélaginu sé rík áhersla á ritrýnd fræðileg skrif. Erfitt sé að fá fræðileg skrif á íslensku metin í efsta flokk og fáir birti þau.
  
Sjö háskólar starfa hér á landi. Um 90% námsefnis í þeim eru á ensku. Hlutfall ensku sem kennslutungumáls í þeim er frá 23% í Háskólanum í Reykjavík og niður í 0% í Landbúnaðarháskólanum. Mikill munur er yfirleitt á grunnnámi og framhaldsnámi hvað þetta varðar. Námskeið á ensku í Háskólanum á Akureyri eru t.d. 8,6% í grunnnámi en 36% í framhaldsnámi.

Nýnemum með erlent ríkisfang í háskólunum fjölgaði um 740% árin 1997-2010.