Skip to main content

Fréttir

Finnsk útgáfa ISLEX hlýtur veglegan styrk

Unnið er að finnskri útgáfu af ISLEX um þessar mundir.

Finnski hluti margmála orðabókarinnar ISLEX hlaut á dögunum þróunarstyrk frá Finnska menningarsjóðnum. Styrkurinn nemur 29.000 evrum sem eru rúmlega fjórar milljónir íslenskra króna og tryggir að áfram verði unnið að finnskri þýðingu orðabókarinnar.

Aðalþýðandi verkefnisins er Marjakaisa Matthíasson og ásamt henni vinnur Hanna Ampula að þýðingum en verkefnisstjóri er Helga Hilmisdóttir lektor í íslensku við Helsinkiháskóla. Vinna við finnska útgáfu orðabókarinnar hófst í ársbyrjun 2013 og standa vonir til að hún verði opnuð formlega í ársbyrjun 2018.

ISLEX-veforðabókin lýsir íslensku nútímamáli og hefur að geyma 50 000 uppflettiorð, tæp 10 000 föst orðasambönd og 31 500 málnotkunardæmi ásamt þýðingum á  dönsku, sænsku, norskt bókmál, nýnorsku, færeysku og finnsku. Í veforðabókinni er fjöldi mynda og þar að auki er hægt að hlusta á lesinn framburð allra uppflettiorða. Að ISLEX standa sex norrænnar fræðastofnanir, þær eru Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í ReykjavíkDet Danske Sprog- og Litteraturselskab í Kaupmannahöfn, Institutt for lingvistiske, litterære og estetiske studier við Háskólann í Bergen, Institutionen för svenska språket við Háskólann í Gautaborg, Fróðskaparsetur Føroya í Þórshöfn og Helsinkiháskóli.

Íslenska ritstjórnin ber ábyrgð á íslenskum hluta orðabókarinnar ásamt mótun og þróun gagnagrunnsins, en vinna við markmálin er í umsjón ritstjórna í hverju landi fyrir sig. Allar orðabækurnar eru aðgengilegar og ókeypis á heimasíðu ISLEX sem er á sex tungumálum.

www.islex.is - www.islex.da - www.islex.no - www.islex.se - www.islex.fo

 

Finnska ritstjórnin fyrir utan Helsinkiháskóla, frá vinstri: Marjakaisa Matthíasson, Hanna Ampula, Helga Hilmisdóttir og Áslaug Hersteinsdóttir-Hölltä.