Skip to main content

Fréttir

Endurnýjuð ríkjaheitaskrá

Stokkhólmur. Mynd fengin af vefnum nyistockholm.se.

 

Fyrr á árinu var settur á fót starfshópur til að samræma og uppfæra heiti erlendra ríkja sem koma fyrir í íslenskum textum. Starfshópurinn komst að niðurstöðu um endurnýjaða ríkjaheitaskrá.

Niðurstaðan er birt í þremur fyrstu dálkunum á þessari vefslóð.

Í starfshópnum sátu fulltrúar frá Hagstofu Íslands (Auður Ólína Svavarsdóttir deildarstjóri), Íslenskri málnefnd (Haraldur Bernharðsson dósent), Ríkisútvarpinu (Anna Sigríður Þráinsdóttir málfarsráðunautur), Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (Ari Páll Kristinsson rannsóknarprófessor) og utanríkisráðuneytinu (Jón Egill Egilsson prótókollsstjóri).

Ríkjaheiti breytast stöku sinnum. Oft á það aðeins við um hin formlegu heiti ríkjanna, einkum af pólitískum ástæðum, en það hefur stundum einnig áhrif á heitin eins og þau eru notuð í almennu máli. Mikilvægt er að ríkjaheitaskrár, sem stjórnvöld, skólar og fjölmiðlar notast við, séu á hverjum tíma sem nákvæmastar og hyggja verður að skynsamlegri og málfræðilega tækri aðlögun heitanna að íslenskum ritreglum.

Íslensk málnefnd hefur um langt árabil leiðbeint og gefið út skrár um ríkjaheiti, ásamt íbúaheitum og tengdum lýsingarorðum, fyrst í samnorrænni útgáfu í Sprog i Norden 1974. Skrifstofa málnefndarinnar – Íslensk málstöð 1985-2006 og eftir það Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum – hefur einnig verið nefndinni til ráðgjafar og aðstoðar við framkvæmdina. Hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er litið svo á að útgáfa ríkjaheitaskrár sé mikilvægur þáttur í leiðbeiningarstarfi stofnunarinnar með sama hætti og aðrar leiðbeiningar og ráðgjöf stofnunarinnar um aðlögun erlendra orða að íslensku máli. 

Til að auka notagildi vefsíðunnar kaus Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að bæta við ríkjaheitin frekari fróðleik og leiðbeiningum: Sýndir eru tveggja og þriggja stafa ISO-kóðar allra ríkjanna, einnig íslensk íbúaheiti og  lýsingarorð eftir því sem við á, ásamt opinberum tungumálum ríkjanna.

Á vefsíðunni birtast þannig eftirfarandi upplýsingar: 

1. Íslenskt/íslenskað heiti ríkis, í þeirri mynd sem almennt tíðkast í ræðu og riti -- "Sýrland"
2. Fullt/formlegt heiti ríkis ef það er annað --  "Sýrlenska arabalýðveldið"
3. Enskt heiti -- "Syrian Arab Republic"
4. Tveggja stafa landskóði --  "SY"
5. Þriggja stafa landskóði -- "SYR"
6. Íbúaheiti í kk. et. --  "Sýrlendingur"     
7. Lýsingarorð í kk. et. -- "sýrlenskur"     
8. Heiti opinbers tungumáls viðkomandi ríkis (geta verið fleiri en eitt), ásamt ISO-kóða tungumáls  -- "arabíska ara"

Gerð er nánari grein fyrir efninu í skýringartexta framan við skrána.