Skip to main content

Fréttir

Dýrmætar gjafir


Dr. Margaret Cormack færði stofnuninni dýrmætar gjafir 26. janúar og 7. febrúar, tvö fágæt vögguprent, þ.e. bækur prentaðar fyrir árið 1500, og eitt handrit frá miðri 15. öld segir í fréttablaði stofnunarinnar sem var sent út rafrænt í gær.

Fréttabréfið má lesa á vefnum: Fréttabréf 2/2012.

Dýrmætar gjafir

Handritið er úr skinni í áttblaðabroti (octavo), 165 x 120 mm að stærð en leturflöturinn er að jafnaði 95 x 70 mm. Það er 16 blöð en á þeim er fyrst dagatal á frönsku (bl. 1r-12v) og latneskar bænir þar fyrir aftan (bl. 13r-16v). Þetta handrit er hluti úr stærri bók, tíðabók sem fylgt hefur Parísarvenju. Það er afar fallegur gripur; bókfellið er sérlega vandað, ljóst að lit og blöðin þunn. Í dagatalinu eru nöfn dýrlinga sett við messudaga þeirra og eru ýmist í bláum eða rauðum lit en dagar höfuðdýrlinga og aðrar stórhátíðir eru auðkenndar með gylltum stöfum. Þá er upphaf hvers mánaðar gefið til kynna með skreyttum upphafsstöfum sem lagðir eru blaðgulli. Handritið er í vönduðu bandi frá 20. öld. Það var keypt hjá fornbókasölu James Thin í Edinborg árið 1976 en ferill þess er að öðru leyti ókunnur. Í handritasafni stofnunarinnar er engin sambærileg bók og því er mikill fengur að gjöfinni.

Önnur prentbókin er Super librum Sapientiae eftir Robert Holkot (d. 1349) en það eru útleggingar á Speki Salómons. Bókin var prentuð árið 1489 í Basel af Johanni Amerbach og Johanni Petri de Langendorff. Hún er í einstaklega fallegu bandi, tréspjöldum sem eru klædd þrykktu leðri með flórísku mynstri. Á því eru leifar af málmkrækjum. Kjölurinn hefur verið styrktur með leifum af pergamentshandriti.

Það er skemmtileg tilviljun að ein bóka Landsbókasafns er einmitt komin úr prentsmiðju Amerbachs í Basel. Sú bók er Expositio in psalterium, ritskýring Saltarans eftir Cassiodorus, prentuð 1491. Johann Amerbach var þekktur prentari og úr prentsmiðju hans eru varðveittar um 75 bækur, sem eru í metum fyrir vandaðan texta sakir náinnar samvinnu Amerbachs við ýmsa lærdómsmenn eins og Ólafur Pálmason segir frá í grein um vögguprent í Landsbókasafni í Árbók safnsins árið 1987.

Hin bókin er De inventione, sive Rhetorica vetus eftir Marcus Tullius Cicero, en ritið er handbók fyrir ræðumenn sem hann samdi á yngri árum. Hún er með skýringum eftir C. Marius Victorinus og viðbótinni Rhetorica ad Herennium cum commento eftir Pseudo–Cicero. Skýringarnar eru prentaðar samhliða textanum á síðurnar. Bókin var prentuð í Feneyjum af  Baptista de Tortis, 31 Oct. 1483. Hún er bundin í leðurklædd pappaspjöld. Í leðrið eru þrykktir sammiðja rammar, með flórísku ívafi og titill gylltur á rauðan grunn á kjölinn.

Prentlistin barst til Rómar um 1465 og skömmu síðar til Feneyja. Baptista de Tortis sérhæfði sig í prentun lögbóka og þekktur fyrir nákvæm vinnubrögð. Gotnesk leturgerð hans var notuð í margar aldir af spænskum prenturum og nefndist ,,letra de Tortis“. Flestar bækurnar sem hann prentaði eru eftir klassíska rómverska höfunda og í samskrá yfir bækur prentaðar fyrir 1600 eru taldir 176 titlar bóka úr prentsmiðju hans sem eru varðveittar á evrópskum bókasöfnum.

Á vef Bayerische Staatsbibliothek í München er hægt að skoða stafrænar myndir af báðum prentbókunum.

Stofnunin þakkar Margaret Cormack einstakt örlæti og þann vinarhug sem hún sýnir með gjöfinni. Margaret hefur um árabil dvalið við fræðistörf á Árnastofnun um lengri eða skemmri tíma og hefur tengst stofnuninni og landinu sterkum böndum. Veturinn 2011–12 dvelur hún einmitt við rannsóknir á stofnuninni.